Maguire og Fernandes áfram á Old Trafford - Silva til í að fara - Endrick í úrvalseildina - Semenyo til Man Utd?
   fim 09. október 2025 11:53
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tekur Jóhann Kristinn við Þrótti?
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Kristinn Gunnarsson hefur verið orðaður við þjálfarastarfið hjá Þrótti á síðustu dögum. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru líkur á því að hann hætti sem þjálfari Þórs/KA í haust og eru líkur á því að næsti áfangastaður verði Laugardalur.

Þrótur hefur áður haft augastað á Jóa því haustið 2023, þegar Ólafur Kristjánsson var ráðinn, var Jói ofarlega á blaði hjá Þrótti.

Óli Kristjáns er að hætta sem þjálfari Þróttar, hann hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins og mun hann einnig leiða þróun og stefnumótun hjá yngri landsliðum kvenna og sinna fræðslutengdum verkefnum hjá KSÍ.

Jóhann Kristinn er fæddur árið 1979 og er að klára sitt þriðja tímabil sem þjálfari Þórs/KA. Þetta er annað skeiðið hans með Þór/KA en hann þjálfaði liðið einnig 2012-2016 og gerði liðið að Íslandsmeisturum á fyrsta ári.

Í upphafi þjálfaraferilsins stýrði hann karla- og kvennaliði Völsungs og þjálfaði karlaliðið aftur á árunum 2017-22.

Þór/KA spilar í kvöld lokaleik sinn á tímabilinu, liðið er í 7. sæti og mætir Fram sem er í 8. sæti. Þróttur mun annað hvort enda í 2. eða 3. sæti en tvær umferðir eru eftir í efri hluta deildarinnar.

Hverjir gætu tekið við Þór/KA?
Fari svo að Jóhann Kristinn verði ekki áfram hjá Þór/KA eru nokkrir álitlegir kostir í stöðunni fyrir stjórn Þór/KA.

Fyrrum þjálfarar liðsins, Jón Stefán Jónsson, Þórólfur Sveinsson og Dragan Stojanovic eru búsettir fyrir norðan, Aðalsteinn Jóhann Friðriksson gerði frábæra hluti með Völsung á Húsavík, Eiður Ben Eiríksson er að flytja norður og Konráð Freyr Sigurðsson, yngri bróðir Donna sem gerði Þór/KA að Íslandsmeisturum 2017, hefur gert flotta hluti með Tindastól.

Þór/KA gæti einnig leitað í óreyndari kosti, þjálfara yngri flokka hjá Þór/KA, Þór eða KA. Þar má nefna Ármann Pétur Ævarsson eða Arnar Geir Halldórsson sem gerðu 2. flokk Þórs að Íslandsmeisturum, Pétur Heiðar Kristjánsson fyrrum aðstoðarþjálfara liðsins, Egil Daða Angantýsson sem þjálfar 2. flokk KA, Svein Leó Bogason aðstoðarþjálfara meistaraflokks Þórs og Anton Orra Sigurbjörnsson sem þjálfar 2. og 3. flokk Þórs/KA.
Athugasemdir
banner