Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 09. nóvember 2023 16:38
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hákon Rafn orðaður við Anderlecht - „Finnst ég vera tilbúinn að spila í stærri deild''
Mynd: Guðmundur Svansson
Mynd: Guðmundur Svansson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Elfsborg, er á leið í úrslitaleik með liði sínu á sunnudag. Liðið mætir Malmö og er ljóst að sigurliðið vinnur sænska meistaratitilinn. Hákon og félagar eru með þriggjaa stiga forskot fyrir leikinn og dugir því jafntefli.

Hákon hefur verið frábær á tímabilinu, haldið hreinu þrettán sinnum og þar á meðal var fyrri leikurinn gegn Malmö sem Elfsborg vann 3-0.

Í vikunni hefur hann verið orðaður við belgíska félagið Anderlecht. Hákon er 22 ára og samningsbundinn Elfsborg út tímabilið 2027. Hann framlengdi samninginn í mars á þessu ári.

Hákon deildi leikjum með öðrum markverði á síðasta tímabili en hefur verið aðalmarkvörður Elfborg á þessu tímabili.

Fotbolldirekt segir frá áhuga erlendra félaga. Þar segir frá áhuga Anderlecht og það séu fleiri félög úr sterkum deildum í Evrópu - sem eru með lið í Meistaradeildinni - sem fylgist með Hákoni. Sagt er að félög frá Hollandi, Belgíu, Ítalíu, Englandi og Þýskalandi fylgist með markverðinum. Ef Hákon færi til Anderlecht þá gæti hann farið í samkeppni við Kasper Schmeichel.

Fjallað er um að Elfsborg gæti verið tilbúið að selja Hákon fyrir um þrjár milljónir evra eða 35 milljónir sænskra króna.

Hjá Elfsborg er Hákon samherji þeirra Andra Fannars Baldurssonar og Sveins Arons Guðjohnsen.

Hefur sjálfur ekki heyrt neitt
„Ég hef ekki heyrt neitt. Eftir að ég sá þessa frétt þá hef ég ekki spurt. Umboðsmaður minn gæti vitað eitthvað, en ég er ekki að spyrja hann um neitt núna. Það er óþarfi á þessum tímapunkti, einn leikur eftir áður en tímabilinu lýkur. Á þeim tímapunkti er hægt að ræða hlutina," sagði Hákon við Fotbollskanalen.

Spáir í framtíðinni eftir lokaleikinn
„Mér finnst ég vera tilbúinn að spila í stærri deild. En eins og ég sagði, þá hef ég ekki heyrt mikið um það og er að njóta mín mjög mikið í Elfsborg. Ég er að einbeita mér að leiknum gegn Malmö," sagði Hákon. Hann á að baki fjóra A-landsleiki og fer eftir leikinn gegn Malmö til móts við landsliðið sem á framundan leiki gegn Slóvakíu og Portúgal.

Fyrr á þessu ári var annar íslenskur markvörður orðaður við Anderlecht. Rúnar Alex Rúnarsson var sagður á lista hjá Anderlecht en ekkert varð úr þeim skiptum. Rúnar sagði sjálfur við Fótbolta.net að hann hefði ekki fengið símtal frá belgíska félaginu. Þessir tveir, Hákon og Rúnar, voru einnig orðaðir við Bröndby í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner