Aston Villa 1 - 0 Arsenal
1-0 John McGinn ('7 )
1-0 John McGinn ('7 )
Aston Villa er alvara og hefur nú blandað sér í titilbaráttuna eftir að liðið vann 1-0 sigur á Arsenal á Villa Park í ensku úrvalsdeildinni í dag. Skoski miðjumaðurinn John McGinn gerði eina mark leiksins á 7. mínútu.
Villa-menn hafa átt stórkostlegt tímabil til þessa og hafa nú unnið tvö stórlið í röð.
Liðið vann frækinn 1-0 sigur á Manchester City í miðri viku og voru ennhungraðir í dag.
John McGinn skoraði eina markið og það eftir frábæra sókn. Hún byrjaði hjá Leon Bailey á hægri vængnum, sem fór á milli þriggja manna áður en hann kom honum frá sér. Bailey hélt hlaupinu áfram áður en Youri Tielemans laumaði honum aftur inn á Bailey, sem lagði hann út á McGinn. Skotinn tók við boltanum með bakið í markið áður en hann snéri sér við og setti boltann snyrtilega í netið.
Arsenal komst betur inn í leikinn eftir um það bil hálftíma. Diego Carlos bjargaði á línu og þá átti Emiliano Martínez nokkrar góðar vörslur frá Martin Ödegaard, Gabriel Jesus og Saka.
Gestirnir vildu fá vítaspyrnu snemma í síðari er Jesus féll í grasið eftir viðskipti sín við Carlos. VAR skoðaði atvikið en dæmdi ekki á það.
Vörn Villa hafði nóg að gera í leiknum. Carlos bjargaði aftur á línu og þá átti Ödegaard skot rétt framhjá markinu.
Arsenal kom boltanum tvisvar í netið. Bukayo Saka skoraði á 61. mínútu en markið dæmt af vegna rangstöðu og þá kom Havertz boltanum í netið undir lok leiks eftir baráttu við Matty Cash. Það mark var einnig dæmt af þar sem Havertz handlék boltann í aðdragandanum.
Baráttusigur hjá Aston Villa sem er áfram í 3. sæti með 35 stig, aðeins einu stigi frá Arsenal sem er í öðru sæti deildarinnar. Villa hefur þá unnið fimmtán heimaleiki í röð og er að lífa góðu lífi undir stjórn Unai Emery.
Athugasemdir