Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 13. apríl 2022 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leah Williamson og endurtekna vítaspyrnan
Mikill léttir eftir að hafa skorað úr vítaspyrnunni gegn Noregi í annað skiptið.
Mikill léttir eftir að hafa skorað úr vítaspyrnunni gegn Noregi í annað skiptið.
Mynd: Getty Images
Gleði í leikslok.
Gleði í leikslok.
Mynd: Getty Images
Williamson er í dag 23 ára gömul og spilar með Arsenal, einu sterkasta félagsliði Englands.
Williamson er í dag 23 ára gömul og spilar með Arsenal, einu sterkasta félagsliði Englands.
Mynd: Getty Images
'Ég hugsaði með mér: 'Hvað er ég núna búin að skrá mig í'
'Ég hugsaði með mér: 'Hvað er ég núna búin að skrá mig í'
Mynd: Getty Images
'Ég er alltaf stressuð fyrir leiki. Katie settist við hliðina á mér og ég byrjaði bara að gráta í búningsklefanum'
'Ég er alltaf stressuð fyrir leiki. Katie settist við hliðina á mér og ég byrjaði bara að gráta í búningsklefanum'
Mynd: Getty Images
'Ég hef alltaf sagt að ég vilji ekki vera þekkt sem stelpan sem tók vítaspyrnuna. Ég vildi að nafnið mitt hefði meiri þýðingu. Þetta eru góðar minningar'
'Ég hef alltaf sagt að ég vilji ekki vera þekkt sem stelpan sem tók vítaspyrnuna. Ég vildi að nafnið mitt hefði meiri þýðingu. Þetta eru góðar minningar'
Mynd: Getty Images
England er á heimavelli á EM í sumar.
England er á heimavelli á EM í sumar.
Mynd: Getty Images
Það var í vikunni tilkynnt að Leah Williamson er nýr fyrirliði enska kvennalandsliðsins. Hún mun leiða liðið á EM á heimavelli í sumar. Þetta eru stór tíðindi enda líklega stærsta mót sem enska kvennalandsliðið hefur tekið þátt í.

Í ljósi þessara tíðinda er tilvalið að rifja upp frétt The Athletic sem var fyrst birt árið 2020. Áhugaverð saga um þennan nýja landsliðsfyrirliða Englands.




Leah Williamson var nýlega búin að fagna 18 ára afmæli sínu þegar hún stóð á vítapunktinum með ensku þjóðina á herðum sér.

Að kvöldi 9. apríl 2015 setti Williamson boltann á vítapunktinn í leik gegn Noregi í Belfast í Norður-Írlandi í undankeppni fyrir EM U19 liða. Fimm dögum áður hafði hún verið í sömu stöðu, á sama velli, í sama leik og á sama tímapunkti í leiknum - á 96. mínútu

Það var þannig að England var 2-1 undir í leiknum. Rosella Ayane hafði komið inn af bekknum og minnkað muninn á 88. mínútu. Á 94. mínútu fiskaði hún vítaspyrnu. Williamson, fyrirliði liðsins, sá um að taka vítspyrnurnar þrátt fyrir að vera varnarmaður.

Það sem gerðist næst átti eftir að draga mikinn dilk á eftir sér.

Williamson skoraði fram hjá norska markverðinum og virtist vera að tryggja Englandi jafntefli. Dómari leiksins, Marija Kurtes, dæmdi vítaspyrnuna ógilda þar sem hún mat það þannig að leikmaður Englands hefði verið komin inn í teig áður en spyrnan var tekin. Í staðinn fyrir að láta taka spyrnuna aftur ákvað dómarinn hins vegar að gefa Noregi aukaspyrnu. Williamson ætlaði sér að taka spyrnuna aftur, en fékk ekki að gera það. Ekki fyrr en nokkrum dögum síðar.

Stuttu síðar var leikurinn flautaður af og 2-1 sigur Noregs staðreynd. England hefði átt að fá að taka spyrnuna aftur og var Kurtes send heim af mótinu vegna mistakana. Flautan fór upp á hillu hjá henni ári síðar.

Englendingar fengu 24 klukkustundir til að áfrýja niðurstöðu leiksins og það var það sem var gert. Áfrýjunin var send inn en England átti eftir að spila tvo leiki, gegn Norður-Írlandi og Sviss.

Ensku stelpurnar unnu öruggan 9-1 sigur á Norður-Írlandi og skoraði Williamson tvisvar í þeim leik. Næsti leikur var gegn Sviss 9. apríl. Enska knattspyrnusambandið fékk að vita það degi fyrir leikinn gegn Sviss að áfrýjunin hefði verið samþykkt og sú ákvörðun var tekin að spila leikinn gegn Noregi aftur frá þeirri mínútu sem vítaspyrnan var dæmd. Það átti því að endurtaka vítaspyrnuna og þær 16 sekúndur sem komu eftir vítaspyrnuna. Þetta var fordæmalaus ákvörðun.

Williamson var sú fyrsta af leikmönnunum sem fékk að vita af ákvörðuninni. Hún svaraði því játandi að taka vítaspyrnuna og gekk hún því næst upp á herbergi sitt. Hún komst hins vegar ekki langt því það leið yfir hana í fyrstu tröppunni. „Ég held að þetta hafi bara verið sjokkið," segir Williamson við The Athletic. „Ég hugsaði með mér: 'Hvað er ég núna búin að skrá mig í?'"

Hún átti ekki að ræða við neinn þar sem það var planaður fundur um kvöldið þar sem leikmannahópnum yrði tjáð þetta. Williamson fór hins vegar til Katie Zelem, sem leikur nú með Manchester United, og sagði henni tíðindin. Zelem var vítaskytta númer tvö í liðinu. „Ég bauðst til að taka vítaspyrnuna ef henni leið ekki vel með það. Ég vissi að hún væri nægilega sterk til að taka spyrnuna en ég held að það hafi verið léttir fyrir hana að heyra að hún þyrfti ekki að gera það. Við töluðum um það í hálftíma í hvora áttina hún ætti að skjóta," segir Zelem.

Þann 9. apríl komst öll enska þjóðin að því hvað væri í uppsiglingu; að Williamson ætti að taka spyrnuna aftur. „Ég fór á flugvöllinn (í Belfast) um morguninn og þetta var út um allt," segir móðir Williamson, Amanda. „Það var á Sky Sports og í blöðunum."

Enska liðið átti að spila á móti Sviss og svo var það stóra stundin um kvöldið, vítaspyrnan gegn Noregi. Það var talað um vítaspyrnuna í rútunni á leiðinni í leikinn gegn Sviss. „Við töluðum um það hvort hún ætti að skjóta í sömu átt eða fara í hina áttina," segir Zelem. „Við sögðum: 'Hvert sem þú setur boltann, vertu sjálfsörugg. Ef vítaspyrnan er góð, þá er það mark'. Hún sagði: 'Hvað um að vippa boltanum?' Það kom ekki til greina."

Í leiknum gegn Sviss, í stöðunni 1-1, fékk enska liðið sína fjórðu vítaspyrnu á fimm dögum. „Ég hugsaði fyrir leikinn: 'Gerðu það, ekki önnur vítaspyrna'," viðurkennir Williamson. Hún fór á punktinn og skoraði eins og hún hafði gert svo oft áður. Það var léttir fyrir hana.

England vann 3-1 og það var allt undir um kvöldið gegn Noregi. Ef Williamson skoraði úr vítaspyrnu þá kæmist England á Evrópumótið.

Þegar ensku stelpurnar mættu á völlinn í Belfast, þar sem allur undanriðillinn fór fram, um kvöldið tóku sjónvarpsmyndavélar á móti þeim. Athyglin var mikil enda gerist svona ekki á hverjum degi í fótbolta.

Hún átti lokasamræður við Zelem áður en farið var út á völlinn. „Ég er alltaf stressuð fyrir leiki. Katie settist við hliðina á mér og ég byrjaði bara að gráta í búningsklefanum. Hún sagði: 'Ef ég gæti valið eina manneskju í þessa stöðu þá værir það þú'."

Svo var farið út á völlinn. Norðmenn reyndu að komast inn í hausinn á Williamson. Hún var komin á sama stað og fimm dögum áður, á vítapunktinn. Vítaspyrnan var í beinni á Sky Sports og veðbankar opnuðu fyrir veðmál í tengslum við vítapsyrnuna. Þetta var stórmál.

Williamson setti boltann niður. Norski markvörðurinn kvartaði yfir staðsetningu boltans og reyndi að tefja eins og hún gat. Það liðu 58 sekúndur frá því að fyrirliði enska liðsins setti boltann niður og þangað til hann var kominn í netið. Þetta var fimmta vítaspyrnan sem hún skoraði úr á fimm dögum. Hún hafði nýtt allar sínar spyrnur.

England náði að halda út þær 16 sekúndur sem voru leiknar eftir vítaspyrnuna. Flautan gall og England var komið á Evrópumótið. Noregur komst einnig áfram á mótið með bestan árangur í öðru sæti af liðunum í undankeppninni.

Fagnaðarlætin voru mikil og Williamson grét í fanginu á móður sinni sem var á vellinum. „Þetta var í fyrsta sinn þennan dag sem mér hafði ekki liðið illa líkamlega." Hún vakti til fimm um nóttina. Hún lagðist á baðherbergisgólfið, notaði boltann sem hún skoraði vítaspyrnuna með sem kodda og las skilaboð í símanum. Hún á enn boltann en er ekki mikið að nota hann.

Williamson hefur beðið með að segja þessa sögu því hún vildi ekki vera þekkt sem stelpan sem tók vítaspyrnuna. „Þetta var risastórt og algjör klikkun," segir hún og bætir við: „Ég hef alltaf sagt að ég vilji ekki vera þekkt sem stelpan sem tók vítaspyrnuna. Ég vildi að nafnið mitt hefði meiri þýðingu. Þetta eru góðar minningar."

Williamson er í dag 25 ára gömul og spilar með Arsenal, einu sterkasta félagsliði Englands. Hún á að baki 28 A-landsleiki fyrir England.

Þessi grein er byggð á grein The Athletic sem má lesa hérna.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner