Man Utd til í að opna veskið fyrir Yildiz - Everton gæti reynt við Phillips - Liverpool hefur áhuga á Wharton
   fös 10. október 2025 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Pabbi í alvörunni, ert þú bara að fara með þennan hóp inn í mótið?"
'Ég er ánægður í ÍBV'
'Ég er ánægður í ÍBV'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það verða einhverjar breytingar, það er alveg ljóst, en þær verða miklu minni breytingar en í fyrra.'
'Það verða einhverjar breytingar, það er alveg ljóst, en þær verða miklu minni breytingar en í fyrra.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjamenn misstu út Omar Sowe og Oliver Heiðarsson með skömmu millibili í maí. Omar sleit krossband en Oliver sneri aftur í júlí.
Eyjamenn misstu út Omar Sowe og Oliver Heiðarsson með skömmu millibili í maí. Omar sleit krossband en Oliver sneri aftur í júlí.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Glugginn var lokaður og leikmennirnir sem tóku við keflinu stóðu sig vel'
'Glugginn var lokaður og leikmennirnir sem tóku við keflinu stóðu sig vel'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexander Már hringdi í pabba sinn stuttu fyrir mót og var áhyggjufullur.
Alexander Már hringdi í pabba sinn stuttu fyrir mót og var áhyggjufullur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marcel hefur átt gott tímabil í marki ÍBV.
Marcel hefur átt gott tímabil í marki ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarki Björn fór mjög vel af stað en svo komu upp meiðsli hjá honum sem höfðu líka hrjáð hann á síðasta tímabili.
Bjarki Björn fór mjög vel af stað en svo komu upp meiðsli hjá honum sem höfðu líka hrjáð hann á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er öðruvísi að þjálfa lið sem þú ert svona tengdur, ég er alinn upp í Vestmannaeyjum og byrjaði minn fótboltaferil þar. Ég hugsa að ástríðan mín fyrir félaginu hafi kannski hjálpað mér'
'Það er öðruvísi að þjálfa lið sem þú ert svona tengdur, ég er alinn upp í Vestmannaeyjum og byrjaði minn fótboltaferil þar. Ég hugsa að ástríðan mín fyrir félaginu hafi kannski hjálpað mér'
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Í raun og veru þurfti ég ekki að hugsa mig mikið um áður en ég skrifaði undir nýjan samning við ÍBV. Það var bara þetta hefðbundna, tala við konuna og svo formanninn og sjá hvort við værum að ganga í takt með framhaldið," segir Þorlákur Árnason, Láki, sem skrifaði í vikunni undir nýjan samning við ÍBV.

Hann hefur gert flotta hluti sem þjálfari liðsins, liðinu var spáð falli, á mörgum stöðum botnsætinu, en þegar tvær umferðir eru eftir er liðið öruggt með sætið í Bestu deildinni á næsta tímabili.

Klúbburinn á réttri leið
Að ganga í takt, er eitthvað sem þú vilt sjá breytingu á hjá ÍBV?

„ÍBV er bara eins og öll félögin í deildinni, kosti og galla. Kostirnir eru fleiri en gallarnir og við ætlum að reyna styrkja það sem við höfum gert vel, ræddum hugmyndafræðina varðandi hópinn og viljum reyna kítta í það sem við gætum gert betur. Heilt yfir teljum við að klúbburinn sé á réttri leið."

Fékk símtal frá syni sínum viku fyrir mót
Þegar farið var af stað í mótið, bjuggust þið allir við því að ykkur yrði spáð falli og hafði það engin áhrif á ykkur?

„Ég get ekkert talað fyrir aðra. Ég viðurkenni að ég hlustaði ekkert á umræðuna í vetur, auðvitað les ég fjölmiðla, fylgist með öllum fréttum á netmiðlum, en podcöstin eru þannig að menn hafa svo mikið frjálsræði yfir það sem þeir segja og þurfa svolítið að búa til fréttir sem er vandmeðfarið. Ég ákvað að hlusta ekkert á það og spáði ekki í umræðunni fyrr en svona viku fyrir mót þegar ég fékk símtal."

„Alexander sonur minn hringdi í mig og spurði hvort ég væri virkilega að fara með þennan hóp inn í mótið. Þá skynjaði ég að hann hefði verið að hlusta á einhver podcöst og menn hefðu ekki mikla trú á okkur. Það var pínu sláandi: „Pabbi í alvörunni, ert þú bara að fara með þennan hóp inn í mótið?" Þá grunaði mig að umræðan hefði verið á þann veginn."

„Almennt eru Eyjamenn alveg vanir því að vera spáð erfiðu gengi, menn hafa ekki spáð ÍBV góðu gengi í gegnum tíðina. Ég viðurkenni alveg að við vissum alveg að við myndum missa einhverja leikmenn, en bæði mér og Magga formanni fannst við vera búnir að missa aðeins of mikið af leikmönnum þegar við fórum af stað í leikmannamálin. Okkur fannst þetta svolítið mikil blóðtaka."


Eyjamaður og stoltur af því að þjálfa liðið
Segir þú við son þinn að ÍBV sé betra en menn halda?

„Ég hafði svakalega trú á þessu, það spilar svolítið inn í að ég er Eyjamaður og rosalega stoltur af því að vera þjálfa ÍBV. Mig langaði að hjálpa ÍBV. Það er öðruvísi að þjálfa lið sem þú ert svona tengdur, ég er alinn upp í Vestmannaeyjum og byrjaði minn fótboltaferil þar. Ég hugsa að ástríðan mín fyrir félaginu hafi kannski hjálpað mér."

Hefði annars farið erlendis
Voru einhverjir aðrir möguleikar í stöðunni fyrir þig áður en þú framlengdir?

„Líkt og undanfarin ár hafa möguleikar mínir legið erlendis. Ég var ánægður í ÍBV og annað hvort hefði ég verið þar áfram eða farið út aftur. Ég er búinn að vera með annan fótinn erlendis síðustu tíu ár, þar er mitt tengslanet, meira en hér á Íslandi."

Var kvíðinn fyrir bátsferðunum
Nú ertu búinn að vera í Eyjum í um það bil ár. Hvernig fílarðu þetta líf og það að taka Herjólf í leiki?

„Ég viðurkenni að ég var pínu kvíðinn að ég yrði mikið sjóveikur, ég var það ekki sem krakki, hugsaði að það liti illa út ef maður væri að leiða liðið en væri mjög sjóveikur. Óskar Zoega aðstoðarmaður minn verður drullu sjóveikur þannig það hefði ekki bætt ástandi ef ég hefði verið í sama pakka. En ég er bara fínn, þetta kemst bara upp í rútínu."

„Við ákváðum að sigla bara í leiki, ekki fresta eins og stundum hefur verið gert. Við fórum í þennan fræga KR leik í Lengjubikarnum í brjáluðu veðri í Þorlákshöfn, nokkrir sem gátu ekki spilað, Milan Tomic lá á sjúkrabekknum í búningsklefanum á meðan við spiluðum. Þetta bara kemst upp í rútínu, er bara partur af því að búa í Vestmannaeyjum og truflar mig ekkert."


Leystu málin innan frá
Er ánægjulegt að ná að sýna að þið voruð miklu betri en menn héldu?

„Eins og öll lið þá misstum við leikmenn, við vorum ekkert í meiri meiðslavandræðum en aðrir í deildinni heilt yfir, en við missum á sama tíma út alla sóknarlínuna; Omar Sowe, Oliver Heiðars og það kemur í ljós að meiðsli Bjarka Bjarnar voru áfram að plaga hann. Ofan á það handarbrotnar Arnar Breki. Þetta allt gerist á tveimur vikum. Bjarki var að mínu mati einn besti leikmaður deildarinnar í byrjun móts. Þegar Omar og Oliver datt út átti Arnar Breki að taka við keflinu en meiðist sjálfur. Það óvenjulega við þetta er að við leystum þetta innan frá. Glugginn var lokaður og leikmennirnir sem tóku við keflinu stóðu sig vel. Þetta tók auðvitað tíma."

„Frammistaðan í byrjun móts var góð og seinni hlutinn er búinn að vera góður. Þar á milli var mjög erfiður tími, þó svo að við höfum unnið einhverja leiki þá vorum við að móta nýtt lið. Við þurftum að sníða leikstílinn að nýjum leikmönnum sem komu inn. Það er mjög óvenjulegt myndi ég segja. Það er ekkert alltaf lausnin að sækja leikmenn, það getur alveg verið það, en þetta fór svona."

„ÍBV er ekki með mikið af peningum til að mæta svona áföllum, en svo kom líka í ljós að þeir leikmenn sem tóku við stóðu sig gríðarlega vel. Við ákváðum því aðeins að bíða með að sækja inn leikmenn, og það var góð ákvörðun."


Minni breytingar en í fyrra
Það eru nokkrir leikmenn hjá ÍBV að renna út á samningi. Sverrir Páll Hjaltested, Marcel Zapytowski og Arnar Breki Gunnarsson eru þar á meðal.

Veistu hverjir verða áfram?

„Við erum að vinna í þessu. Það er ekki komið á hreint, einhverjir hlutir sem stjórnin ræður sem maður kemur ekki að, eins og peningamálin. Það verða einhverjar breytingar, það er alveg ljóst, en þær verða miklu minni breytingar en í fyrra. Það munu samt einhverjir leikmenn fara sem maður vill ekki missa, það er alltaf þannig."

„Við erum með skýra stefnu hvernig leikmenn við viljum fá, höfum sótt frekar unga leikmenn. Liðið var næstyngst í deildinni, samt á mjög góðum aldri og ekki ungt til að nota það sem afsökun. Ungt og sprækt lið og líkamlega séð mjög gott."

„Við viljum halda þeim einkunnum, ef við missum leikmenn þá viljum við sækja leikmenn sem eru á ákveðnum aldri, með ákveðin líkamleg gildi og passa andlega inn í umhverfið í Vestmannaeyjum. Við höfum verið mjög heppnir með leikmennina sem hafa komið, þeir hafa verið „Eyjalegir","
segir Láki.

„Ekki verið svona góðri stöðu í mörg mörg ár"
Báðir markmennirnir, Marcel og Hjörvar Daði Arnarsson, eru að verða samningslausir. Veistu hvað þú vilt gera í þeim málum?

„Það er ekkert leyndarmál að við erum með tvo mjög góða markmenn, mjög gott par. Hjörvar hefur spilað fjóra leiki og staðið sig mjög vel þeim, Marcel hefur heilt yfir verið einn af 3-4 bestu markmönnum deildarinnar út frá tölfræðinni og er markmaður sem hentar okkur mjög vel. Báðir eru þeir tiltölulega ungir. Maður sér, eins og fjölmiðlar hafa bent á, að Marcel hefur bæði unnið fyrir okkur stig en líka tapað stigum fyrir okkur. Það er kannski út af því að hann er bara 24 ára gamall, þannig það er ekkert óeðlilegt. Þeir hafa báðir staðið sig gríðarlega vel og undirstrikar mikilvægi þess að vera með tvo góða markmenn, líka upp á æfingar að gera. ÍBV hefur ekki verið svona góðri stöðu í mörg mörg ár með markmenn. Þeirra mál eru bara í skoðun," segir Láki.
Athugasemdir
banner
banner