Maguire og Fernandes áfram á Old Trafford - Silva til í að fara - Endrick í úrvalseildina - Semenyo til Man Utd?
   fim 09. október 2025 20:15
Ívan Guðjón Baldursson
Mbappé og Vinícius farnir að þekkja betur á hvorn annan
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Frönsku ofurstjörnunni Kylian Mbappé líður mjög vel innan herbúða Real Madrid og er leikmaðurinn kominn með 14 mörk og 2 stoðsendingar í 10 leikjum það sem af er tímabils.

Mbappé hefur verið að leika sem fremsti sóknarmaður undir stjórn Xabi Alonso, með Vinícius Júnior á vinstri kantinum. Brasilíumaðurinn knái er kominn með 5 mörk og 4 stoðsendingar í 10 leikjum á upphafi tímabils.

„Ég á í mjög góðu sambandi við Vinícius, miklu betra sambandi heldur en á síðustu leiktíð útaf því að við þekkjumst betur núna. Hann er frábær leikmaður og manneskja og við erum með sama markmið: að vinna titla með Real Madrid," sagði Mbappé meðal annars á fréttamannafundi með franska landsliðinu í dag.

„Ég hef komið mér vel fyrir í Madríd, ég er afslappaðari hérna. Þetta á samt auðvitað ekki að lesast sem einhver árás á Frakkland. Lífstíllinn er öðruvísi, það er allt miklu rólegra hérna heldur en í París og mér hefur tekist að koma hausnum og fótleggjunum í gott stand."

Mbappé hefur verið að glíma við ökklameiðsli á upphafi tímabils, en hann segir að sér líði vel. Hann vill ólmur spila með Frökkum í landsleikjahlénu. Mbappé og félagar taka á móti Aserbaídsjan annað kvöld áður en þeir heimsækja Strákana okkar á Laugardalsvöll á mánudagskvöldið.

„Ég vil spila og þjálfarinn vill að ég spili. Það er ekkert vandamál, mér líður vel."
Athugasemdir
banner