Það hefur gustað um í kaplakrika síðustu vikur. FH hefur ákveðið að Heimir Guðjónsson verði ekki áfram þjálfari liðsins að tímabilinu loknu en Félagið hefur verið gagnrýnt vegna framkomu þeirra við Heimi, sigursælasta þjálfari í sögu FH. Liðið hefur þegar ráðið nýjan þjálfara en FH vill ekki tilkynna hver tekur við fyrr en eftir tímabil. Jóhannes Karl Guðjónsson þykir líklegasti kosturinn.
Fótbolti.net ræddi við fjóra stuðningsmenn FH og spurði þá út í stöðu mála í Kaplakrika, eftirfarandi fjórar spurningar voru lagðar fyrir stuðningsmennina:
Átti Heimir að stýra liðinu áfram?
Var liðið á réttri vegferð undir stjórn Heimis?
Finnst þér vinnubrögð FH hafa verið léleg gagnvart Heimi?
Jóhannes Karl líklegasti arftakinn, hvernig líst þér á hann?
Freyr Árnason, leikstjóri
Átti Heimir að stýra liðinu áfram?
Ég held það hafi ekkert endilega verið gott í stóra samhenginu. Eins og kom fram í viðtali við Davíð Viðars þá er komið eitthvað masterplan í gang og ef Heimir er ekki framtíðarkostur til lengri tíma þá er bara betra að leiðir skilji strax frekar en að hann haldi áfram í 1-2 ár í viðbót. Ég veit ekki hverju það myndi skila fyrir báða aðila.
En síðan er þetta Heimir Guðjóns og að sjálfsögðu er bara partur af manni sem vill að hann fái æviráðningu, lyklana að öllum Kaplakrika og síðan verði bara kveðjuleikur þegar hann verður 72 ára. Það hefði verið hin leiðin.
Var liðið á réttri vegferð undir stjórn Heimis?
Hann hefur allavega náð að stabílisera liðið og klúbburinn er allur á betri stað. Seinni partur sumar var virkilega góður, við gerðum Kaplakrika aftur að vígi og síðan náði Heimir að búa til þannig lið að manni hlakkaði mest til leikjanna við liðin efst í töflunni.
Að því sögðu finnst mér menn hafa farið aðeins fram úr sér að tala um það sé algerlega ruglað að FH hafi endað í topp 6. Heimir gerði margt ótrúlega vel í sumar en það er talað eins og hann hafi mætt í mótið með lið þar sem annar hver leikmaður er með staurfót og lepp. Þetta er ekki dýpsti hópurinn er við erum með alvöru leikmenn þarna í bland við mjög spennandi náunga.
En ef við skoðum hverju Heimir tók og við og hverju hann skilar af sér þá held ég að allir séu sammála því að Heimir er að skila af sér verki sem fáir hefðu getað gert.
Finnst þér vinnubrögð FH hafa verið léleg gagnvart Heimi?
Ef ég hefði fengið það hlutskipti að tilkynna Heimi Guðjóns að það ætti ekki að framlengja við hann þá væri ekki ennþá búið að tilkynna honum það. En auðvitað það hefði verið best fyrir alla ef þetta hefði verið tæklað aðeins fyrr.
Jóhannes Karl líklegasti arftakinn, hvernig líst þér á hann?
Frábærlega. Geðveikt að fá einn skagamann í fjörðinn. Við þurfum bara taka hann á Barbara kaffibar, sýna honum blokkahringinn í Norðurbænum, rúllutertuhúsið í setberginu og fara með hann í sveppinn í suðurbæjarlaug og þá er framtíð FH björt.
Hafliði Breiðfjörð, ljósmyndari og fyrrum eigandi Fótbolta.net
Átti Heimir að stýra liðinu áfram?
Auðvitað átti hann að stýra liðinu áfram. Umræðan um Heimi sem hefði átt að eiga sér stað hjá þeim sem stjórna FH hefði átt að vera hvar styttan af honum væri sett niður en ekki hvort það ætti að henda honum út eins og skítugri tusku öðru sinni. Heimir er goðsögn í sögu FH og hefur gefið félaginu svo margar frábærar stundir. Síðast þegar hann var látinn fara byrjaði að ganga mjög illa og vonandi mun þessi uppákoma ekki kosta of mikið fyrir komandi ár hjá FH.
Var liðið á réttri vegferð undir stjórn Heimis?
„Heimir Guðjónsson er að mínu viti besti þjálfari landsins og hefur sýnt það með árangri sínum og titlum. Hann hafði ekki mikinn efnivið að vinna úr og var að stýra liði félags sem hefur verið í miklum ólgusjó. Það er þekkt að þegar félag er í basli getur það smitast út í liðið en Heimir náði að halda liðinu utan þess. Hann hefur náð miklu út úr liðinu og það var frábært að enda í efri hluta í deildarinnar. Gerði Kaplakrika að miklu vígi aftur þar sem FH tapar ekki leik.
Finnst þér vinnubrögð FH hafa verið léleg gagnvart Heimi?
Orðspor FH hefur verið í molum undanfarið og framkoma félagsins í garð Heimis núna er ekkert til að bæta það. Þegar Heimir yfirgaf félagið síðast var komið virkilega illa fram við hann en samt var hann tilbúinn að fyrirgefa og snúa aftur við erfiðar aðstæður.
Eftir allt sem á undan var gengið var ekki talað við hann þegar leitað var af eftirmanni hans bakvið tjöldin og á endanum þurfti hann að fara í viðtal við Fotbolti.net til að pressa á að fá framtíð sína á hreint. Viðtalið og virkilega góð ræða Magnúsar Hauks Harðarsonar í Innkastinu á Fotbolti.net pressaði félagið svo loksins í að tala við Heimi og gefa frá sér yfirlýsingu.
FH-ingar verða að átta sig á að félagið er í eigu félagsmanna og okkur verður að vera umhugað um orðsporið og komið sé vel fram við goðsagnir félagsins. Núna virðist félagið rekið eins og konungdæmi, þar sem krúnan erfist niður til næsta ættingja. Þannig virkar það ekki hjá íslenskum íþróttafélögum og vonandi standa félagsmenn vörð um það. Það ætti kannski að skipta út annars staðar en í þjálfarastöðunni.
Jóhannes Karl líklegasti arftakinn, hvernig líst þér á hann?
Það er ljóst að með nýjum þjálfara þarf að að búa til nýtt lið aftur sem hann kallar sitt lið, og nýr maður þarf að aðlagast. Ef Jói Kalli er að taka við þá vona ég innilega að það takist hjá honum en hef engar forsendur til að meta það. Hann þarf líka að skilja hvaða umhverfi býður hans í stjórnun félagsins meðan hún er óbreytt.
Orri Freyr Rúnarsson, útvarpsmaður
Átti Heimir að stýra liðinu áfram?
Ég var í raun á báðum áttum. Heimir er goðsögn hjá FH og hefur gert fína hluti með liðið. Ég held að hann hefði haldið því áfram ef hann hefði fengið tækifæri til þess. Stjórnin vildi hins vegar breytingar, og ég skil það sjónarmið líka. Þú vilt auðvitað ekki hafa þjálfara sem nýtur ekki 100% stuðnings frá stjórninni.
Var liðið á réttri vegferð undir stjórn Heimis?
Leikur FH hefur klárlega batnað frá því að Heimir tók aftur við liðinu. Persónulega hef ég þó saknað þess að sjá FH stjórna leikjum oftar í ár. Liðið hefur náð fínum úrslitum gegn toppliðunum, sérstaklega á heimavelli, en árangurinn gegn neðri hluta deildarinnar hefur ekki verið jafn góður. FH er til dæmis með 18 stig af 36 mögulegum gegn liðunum í neðstu sex sætunum.
Finnst þér vinnubrögð FH hafa verið léleg gagnvart Heimi?
Nei, ég myndi ekki segja það. Mögulega hefði mátt ganga frá þessu fyrr, en það er í raun frekar algengt að svona ákvarðanir séu teknar undir lok tímabils – og jafnvel eftir það. Eins og Heimir hefur sjálfur sagt í viðtölum, þá virkar þessi bransi oft einmitt svona.
Það sem skiptir máli núna er að kveðja Heimi almennilega í lokaleiknum. Enginn FH-ingur gleymir því sem hann hefur gert fyrir félagið – hvort sem það var sem leikmaður eða þjálfari. Hann hefur átt stóran þátt í öllum titlum félagsins hingað til.
Jóhannes Karl líklegasti arftakinn, hvernig líst þér á hann?
Ef þær sögusagnir reynast réttar, þá líst mér bara ágætlega á það. Ég verð að viðurkenna að ég horfi ekki á dönsku 3. deildina allar helgar, en hann er að gera góða hluti hjá stóru liði í Danmörku og er klárlega einn mest spennandi þjálfari landsins í dag. Það verður mjög áhugavert að sjá hvað hann gerir hjá FH.
Jónas Ýmir Jónasson, FH-ingur
Átti Heimir að stýra liðinu áfram?
Algerlega, ég er ekki endilega að segja að hann hafi átt að fá 3 ára samning. Óli Jó samdi t.d. alltaf til eins árs í einu hér áður fyrr. Því er ekki að neita að síðustu 5 leikir í fyrra voru vonbrigði og tímabilið í byrjun móts leit ekki vel út. Núna er ákveðinn meðbyr í gangi hjá félaginu og ég held að hann hafi sýnt fram á það að hann eigi skilið að halda áfram með liðið á næsta tímabili.
Heimir er auðvitað einn vinsælasti leikmaður og þjálfari í sögu FH og mjög erfitt fyrir hvern sem er að taka við. Ég minnist á hversu ótrúlega var tekið á móti Heimi þegar hann sneri aftur.
Var liðið á réttri vegferð undir stjórn Heimis?
Heimir sýndi það á seinni hluta tímabilsins að það var allt á réttri vegferð þó að smá efasemdir hafi verið um hvernig tímabilið hófst í vor. Allir stuðningsmenn eru sammála því að verkefni Heimis var hvergi nærri lokið.
Finnst þér vinnubrögð FH hafa verið léleg gagnvart Heimi?
Hvernig stjórn FH hefur farið að hlutunum síðustu ár er á allan hátt skammarlegt. Það byrjar með stóra Daða Lárs-málinu eftir tímabilið 2009. En hvað gera þeir? Sömu mistök alveg eins og 2017. Miðað við allt sem Heimir hefur gert fyrir félagið þá á hann þá virðingu skilið að það sé komið hreint fram við hann.
Það var ekki gert 2017 og ekki heldur gert núna 8 árum síðar. Þessi kveðja, Takk Heimir, frá félaginu var frekar hallærisleg og sýnir að upphaflega planið var að tilkynna þetta ekki fyrr en eftir tímabilið. Óánægju stuðningsmanna var greinilega fundið fyrir og því kom þessi yfirlýsing í síðustu viku.
Jóhannes Karl líklegasti arftakinn, hvernig líst þér á hann?
Nýjustu sögur segja það sé klárt. Það kæmi mér samt á óvart að þessi stjórn FH myndi ráða einhvern sem hefur enga tengingu við FH. Jóhannes Karl er mikill og skemmtilegur karakter og ég held að hann sé einhver sem þessir rugluðu stuðningsmenn, eins og ég, myndu eiga skap með. Af þeim sem hafa verið nefndir þá líst mér vel á hann. Það var alveg gott tækifæri að fá utanaðkomandi þjálfara með metnað.
En höfum eitt á hreinu. Þú kemst ekki ofar í 5. sæti með markmann eins og Rosenorn sama hver þjálfarinn er. En það er eins gott að þessi ákvörðun með næsta þjálfara muni virka. Fyrst að Heimir var látinn fara þá hljóta þeir að vera með eitthvað masterplan í gangi. Það sem gerði FH að besta liði aldarinnar var samstaða allt frá formanni, stuðningsmönnum, leikmönnum og þjálfurum.
Áður fyrr var borin virðing fyrir okkur stuðningsmönnum en það hefur ekki sést síðustu 10 ár sirka. Ef einhver hefur sterkar skoðanir þá á hann helst ekki að vera að tjá sig. Því miður fyrir marga þá látum við heyra í okkur. Eins og textinn segir í einu elsta FH-laginu: „Með samstilltu átaki alltaf við verðum á toppnum.“ Það þarf að sameina klúbbinn á ný og FH á alltaf að vera að berjast um titla á hverju ári.