Höjlund og Gakpo með tvennur - Arnautovic með fernu
Það var nóg um að vera í undankeppni Evrópuþjóða fyrir HM í kvöld, þar sem Skotland lagði Grikkland að velli í mikilvægum slag í C-riðli.
Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn þar sem gestirnir frá Grikklandi voru sterkari aðilinn og fengu dauðafæri sem rataði þó ekki í netið.
Grikkir byrjuðu seinni hálfleikinn líka af krafti og fengu frábært færi áður en bakvörðurinn Kostas Tsimikas tók forystuna með marki eftir að boltinn datt fyrir hann í vítateignum.
Skotar voru þó ekki lengi að svara fyrir sig þar sem Ryan Christie jafnaði metin í kjölfar hornspyrnu tveimur mínútum síðar. Staðan hélst jöfn þar til á lokakaflanum þegar Skotar fengu aukaspyrnu við vítateigslínuna á hægri kanti. Andy Robertson gaf góðan bolta fyrir sem datt í þvöguna í teignum og náði Lewis Ferguson, leikmaður Bologna, að setja hann í netið af stuttu færi.
Grikkir reyndu að sækja sér jöfnunarmark í uppbótartíma en fengu þess í stað mark á sig frá Lyndon Dykes, svo lokatölur urðu 3-1.
Skotar deila núna toppsæti riðilsins með Dönum þar sem bæði lið eiga sjö stig eftir þrjár umferðir, eftir að hafa gert jafntefli innbyrðis. Þeir eru fjórum stigum fyrir ofan Grikki.
Danir eru í toppsætinu á markatölu eftir stórsigur gegn Belarús í kvöld. Rasmus Höjlund skoraði tvennu í fyrri hálfleik og kom Anders Dreyer inn af bekknum í síðari hálfleik til að setja aðra tvennu. Victor Froholdt og Patrick Dorgu komust einnig á blað í sex marka sigri í Ungverjalandi. Hvítrússar mega ekki spila á heimavelli útaf stríðinu í Úkraínu.
Í L-riðli mættust Tékkland og Króatía í toppslag og úr varð mikill baráttuleikur þar sem lítið var um færi og lokatölur urðu 0-0.
Króatar halda toppsæti riðilsins með þessu jafntefli, þeir eru jafnir Tékkum á stigum en með talsvert betri markatölu og leik til góða.
Færeyjar eru í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir toppliðunum. Færeyingar rúlluðu yfir Svartfjallaland í kvöld með Gunnar Vatnhamar í byrjunarliðinu.
Hanus Sörensen og Arni Frederiksberg skoruðu mörk Færeyinga í 4-0 sigri. Færeyjar eiga 9 stig eftir tvo sigra gegn Gíbraltar, en núna þurfa þeir að vinna Tékkland á heimavelli þegar þjóðirnar mætast á sunnudaginn vilji þeir eiga möguleika á að skrifa söguna með að næla sér í sæti á HM.
Marko Arnautovic skoraði þá fernu í tíu marka sigri Austurríkis á heimavelli gegn San Marínó á meðan Cody Gakpo skoraði úr tveimur vítaspyrnum fyrir Holland í Möltu, áður en hann lagði upp mark fyrir Tijjani Reijnders. Memphis Depay, markahæsti leikmaður í sögu hollenska landsliðsins, kom inn af bekknum og skoraði síðasta mark leiksins í fjögurra marka sigri.
Kýpur náði að lokum í jafntefli á heimavelli gegn Bosníu, sem hefur átt frábæra undankeppni hingað til. Kýpverjar jöfnuðu með marki úr vítaspyrnu seint í uppbótartíma.
Bosníumenn eru í góðri stöðu í öðru sæti H-riðils þrátt fyrir óvænt jafntefli. Austurríki trónir á toppi riðilsins með fullt hús stiga.
Skotland 3 - 1 Grikkland
0-1 Konstantinos Tsimikas ('62 )
1-1 Ryan Christie ('64 )
2-1 Lewis Ferguson ('80 )
3-1 Lyndon Dykes ('93 )
Belarús 0 - 6 Danmörk
0-1 Victor Froholdt ('14 )
0-2 Rasmus Hojlund ('19 )
0-3 Patrick Dorgu ('45 )
0-4 Rasmus Hojlund ('45 )
0-5 Anders Dreyer ('66 )
0-6 Anders Dreyer ('78 )
Tékkland 0 - 0 Króatía
Færeyjar 4 - 0 Svartfjallaland
1-0 Hanus Sorensen ('16 )
2-0 Arni Frederiksberg ('36 )
3-0 Hanus Sorensen ('55 )
4-0 Arni Frederiksberg ('72 , víti)
Austurríki 10 - 0 San Marínó
1-0 Romano Schmid ('7 )
2-0 Marko Arnautovic ('8 )
3-0 Michael Gregoritsch ('24 )
4-0 Stefan Posch ('30 )
5-0 Stefan Posch ('42 )
6-0 Konrad Laimer ('45 )
7-0 Marko Arnautovic ('47 )
8-0 Nikolaus Wurmbrand ('76 )
9-0 Marko Arnautovic ('83 )
10-0 Marko Arnautovic ('84 )
Malta 0 - 4 Holland
0-1 Cody Gakpo ('12 , víti)
0-2 Cody Gakpo ('48 , víti)
0-3 Tijani Reijnders ('57 )
0-4 Memphis Depay ('93 )
Kýpur 2 - 2 Bosnía
0-1 Nikola Katic ('10 )
0-2 Neofytos Michail ('36 , sjálfsmark)
1-2 Konstantinos Laifis ('45 )
2-2 Ioannis Pittas ('96, víti)
Athugasemdir