Man Utd til í að opna veskið fyrir Yildiz - Everton gæti reynt við Phillips - Liverpool hefur áhuga á Wharton
banner
   fös 10. október 2025 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ánægður og upp með sér - „Gríðarlega mikill heiður fyrir hvaða þjálfara sem er"
Kvenaboltinn
'Það hefur alltaf verið draumur að fá það hlutverk'
'Það hefur alltaf verið draumur að fá það hlutverk'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég er búinn að vera 14 ára í félagsliðabolta og ég held það sé ágætt að breyta aðeins til'
'Ég er búinn að vera 14 ára í félagsliðabolta og ég held það sé ágætt að breyta aðeins til'
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
'Ég ætla að veita landsbyggðinni mikla athygli, mun nýta mínar tengingar sem ég hef myndað í gegnum tíðina við fólk á landsbyggðinni'
'Ég ætla að veita landsbyggðinni mikla athygli, mun nýta mínar tengingar sem ég hef myndað í gegnum tíðina við fólk á landsbyggðinni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Jón Sigurðsson, eða Donni, var í gær tilkynntur sem nýr þjálfari U19 landsliðs kvenna. Hann tekur við starfinu af Þórði Þórðarsyni sem sagði upp í ágúst.

Donni hefur undanfarin ár þjálfað á Sauðárkróki. Hann hóf þjálfaraferilinn á Króknum, fór svo til Akureyrar og sneri svo aftur í Skagafjörð. Hann hefur þjálfað meistaraflokk karla og kvenna hjá Tindastóli, Þór og Þór/KA á sínum ferli. Hann gerði Þór/KA að Íslandsmeisturum árið 2017. Fótbolti.net ræddi við Donna um nýja starfið og aðdragandann.

„Þetta kemur þannig upp að staðan var auglýst og ég sæki bara um. Þá hefst ferli og á endanum er tekin ákvörðun að ég henti kannski best í stöðuna og ég tek ákvörðun að þetta henti mér best í stöðunni," segir Donni.

Langaði þig að fara úr félagsliðaboltanum á þessum tímapunkti?

„Það blundaði kannski alveg í mér, langaði kannski ekki beint að fara úr félagsliðaboltanum, en ég var alveg tilbúinn til þess. Ég var klárlega með augastað á að vinna fyrir knattspyrnusambandið, það hefur alltaf verið draumur að fá það hlutverk, það er aðlaðandi og ég hugsaði það sem mögulegt skref upp á við fyrir sjálfan mig. Ég er mjög ánægður og upp með mér að hafa fengið þetta starf á þessum tímapunkti á mínum ferli. Fyrst og fremst er, myndi ég halda, gríðarlega mikill heiður fyrir hvaða þjálfara sem er að fá að vinna fyrir landið sitt. Ég lít á það sem gríðarlegan heiður og er mjög stoltur af því að vera treyst fyrir því verkefni. Ég er búinn að vera 14 ára í félagsliðabolta og ég held það sé ágætt að breyta aðeins til, fyrir mig og aðra sem ég hef verið að þjálfa. Sérstaklega fyrir mig að fá öðruvísi áskorun."

Skoðar þú hvernig mannskapurinn í U19 er þegar þú tekur að þér þetta starf?

„Ég horfi til framtíðar fyrst og fremst, ég viðurkenni að það kemur því ekkert við hvernig hópurinn er núna í U19. Þessi staða var laus núna og ég sótti um hana, ég hef áður sótt um hjá knattspyrnusambandinu, hef sýnt því áhuga í gegnum árin að fá að vinna þar. Núna komu öll spilin saman, þetta varð að veruleika og ég er mjög stoltur af því. Þetta hefur blundað í mér lengi og ég er ótrúlega glaður að þetta hafi orðið að raunveruleika."

Donni hafði haustið 2018 áhuga á því að taka við kvennalandsliðinu en þá var jón Þór Hauksson ráðinn. Donni getur unnið U19 þjálfarastarfið frá Sauðárkróki en mun vera talsvert á ferðinni.

„Það er samblanda, ég að sjálfsögðu verð mjög oft og mikið í Reykjavík og vinn þar á skrifstofu sambandsins. Ég ætla að sinna þessu starfi af kostgæfni, af mikilli alvöru og mun gefa mig allan í þetta. Ég ætla að veita landsbyggðinni mikla athygli, mun nýta mínar tengingar sem ég hef myndað í gegnum tíðina við fólk á landsbyggðinni - ásamt því auðvitað að fylgjast vel með á höfuðborgarsvæðinu og svæðinu þar í kring."

„Ég held að ég geti mikið gott af mér leiða í þessari stöðu,"
segir Donni. Nánar var rætt við Donna og verða meira úr viðtalinu birt seinna í dag.
Athugasemdir
banner