Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 10. nóvember 2019 15:57
Brynjar Ingi Erluson
England: Martial lagði upp tvö í sigri Man Utd
Marcus Rashford er að hitna. Hann skoraði sjötta deildarmark sitt á tímabilinu
Marcus Rashford er að hitna. Hann skoraði sjötta deildarmark sitt á tímabilinu
Mynd: Getty Images
Tveimur fyrstu leikjum dagsins í ensku úrvalsdeildinni er lokið en Manchester United vann Brighton 3-1 á meðan Wolves lagði Aston Villa 2-1.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, virðist vera að koma liðinu á gott ról en liðið vann Partizan 3-0 í Evrópudeildinni á fimmtudag og þá skoraði liðið aftur þrjú mörk í dag.

Það var brasilíski sóknartengiliðurinn Andreas Pereira sem skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu eftir sendingu frá Anthony Martial. Hann átti þá skot úr teignum sem fór af Dale Stephens og í netið og tveimur mínútum síðar var Scott McTominay búinn að bæta við öðru eftir darraðadans í teignum. Markið skráist þó sem sjálfsmark þar sem Davy Pröpper virtist koma boltanum yfir línuna.

VAR skoðaði atvikið því Harry Maguire virtist koma við knöttinn í markinu en eftir dágóða stund komust menn í VAR-herberginu að niðurstöðu og fékk markið að standa.

Lewis Dunk minnkaði muninn á 64. mínútu áður en Marcus Rashford gerði út um leikinn tveimur mínútum síðar. Anthony Martial fékk þá boltann vinstra megin í teignum, fann Rashford sem skaut boltanum í slá og inn.

Rashford gat bætt við fjórða markinu stuttu síðar en skaut framhjá fyrir opnu marki. Lokatölur 3-1 á Old Trafford og United upp í 7. sæti með 16 stig.

Á sama tíma vann Wolves 2-0 sigur á Aston Villa. Ruben Neves kom Wolves yfir eftir vel útfærða aukaspyrnu Joao Moutinho undir lok fyrri hálfleiks.

Raul Jimenez skoraði svo annað mark Wolves undir lok leiks eftir góða sendingu frá Adama Traore á 84. mínútu. Undir lok leiks minnkaði Trezeguet muninn fyrir Aston Villa en lengra komust nýliðarnir ekki.

Wolves í 8. sæti með 16 stig en Aston Villa með 11 stig í 16. sæti.

Úrslit og markaskorarar:

Manchester Utd 3 - 1 Brighton
1-0 Andreas Pereira ('17 )
2-0 Davy Propper ('19 , sjálfsmark)
2-1 Lewis Dunk ('64 )
3-1 Marcus Rashford ('66 )

Wolves 2 - 1 Aston Villa
1-0 Ruben Neves ('41 )
2-0 Raul Jimenez ('84 )
2-1 Trezeguet ('90 )
Athugasemdir
banner
banner