Haukur Leifur Eiríksson samdi við HK í síðustu viku en hann kemur frá Þrótti Vogum þar sem hann spilaði í fjögur tímabil.
Haukur er 22 ára miðvörður sem uppalinn er hjá FH. Hjá HK hittir hann fyrir Hermann Hreiðarsson sem fékk hann í Þrótt árið 2021.
Haukur er 22 ára miðvörður sem uppalinn er hjá FH. Hjá HK hittir hann fyrir Hermann Hreiðarsson sem fékk hann í Þrótt árið 2021.
„Það er geggjað að vera orðinn leikmaður HK, flottur klúbbur og klefinn frábær. Ég hlakka mikið til að takast á við nýjar áskoranir," segir Haukur.
Af hverju ertu orðinn leikmaður HK?
„Eftir að samtölin hófust þá var þetta nú frekar fljótt að gerast. Allt við það að verða leikmaður HK heillaði og það spilar stærstan hlut í að vera orðinn leikmaður HK."
„Það sem er mest heillandi er aðstaðan, stærð klúbbsins, leikmennirnir og þjálfarateymið. Svo hefur klúbburinn verið stabíll undanfarin ár, mikið í efstu deild og farið beint upp aftur þegar liðið hefur fallið. Metnaðurinn er mikill innan klúbbsins og það virðast allir vilja róa í sömu átt sem er mjög heillandi."
Erfitt að kveðja en fannst kominn tími á næsta skref
Haukur var í fjögur ár í Vogum. Er erfitt að fara frá Þrótti?
,Það er alltaf erfitt að kveðja frábæran klúbb sem manni líður vel hjá, en mér fannst vera kominn tími á að taka næsta skref. Ég mun alltaf hafa sterkar tilfinningar til Voganna enda mikill fjölskylduklúbbur og maður varð fljótt stór hluti af samfélaginu þar."
Mjög þroskandi tími
Hvernig gerirðu upp tímann þar?
„Tími minn hjá Þrótti var frábær, mikið af hæðum og lægðum. Þetta var mjög þroskandi tími, ekki bara sem fótboltamaður heldur líka sem einstaklingur. Klefinn alltaf stórskemmtilegur og maður hlakkaði alltaf til að mæta á æfingar og í leiki. Ég mæli með fyrir alla leikmenn, sérstaklega unga leikmenn, að fara í Vogana."
Hvernig líturðu til baka ákvörðunina að ganga í raðir Þróttar?
„Tímabilin 2021 og 2022 fer eg á láni og skrifa svo undir 2023. 2021 var ég sendur af FH á æfingu hjá Þrótti og ég passaði bara strax inn. Mér leið vel þau skipti sem ég var á láni, sem varð til þess að ég skipti alfarið yfir fyrir tímabilið 2023. Þegar maður horfir til baka var þetta allt skemmtilegt og þroskandi og eitthvað sem maður hafði gott af. Sérstaklega fyrstu lánsdvölinni þegar ég var á elsta ári í 2. flokki, þá hafði maður gott að kynnast hörkunni og fullorðins fótbolta."
Skemmtilegt og spennandi en líka svekkjandi
Haukur var beðinn um að gera upp tímabilið 2024.
„Tímabilið í ár var skemmtilegt og spennandi. Við byrjuðum ekki vel og vorum að skila asnalegum úrslitum. Svo fannst mér vendipunkturinn vera að norðan gegn KF, þá breytum við um leikkerfi og hópurinn orðinn þéttur - það var svolítið lengi að gerast þar sem hópurinn var tilbúinn seint. Eftir það var tímabilið skemmtilegt en á sama tíma mjög svekkjandi þar sem við missum af sætinu í Lengjudeildinni vegna mistaka hjá okkur í nokkrum leikjum. Þetta var í heildina mjög þroskandi tímabil og þetta lið átti meira en skilið að fara upp í Lengjudeildina."
„Ég var sáttur með eigið tímabil, þetta byrjaði svolítið þungt en svo ákvað ég að setja meira púður í þetta. Það borgaði sig vel og fannst mér ég persónulega eiga mjög gott tímabil enda undir góðri leiðsögn hjá Gunna. Hann hjálpaði mér mikið að vaxa sem leikmaður á þessu tímabili."
Hlakkar til að læra enn meira af Hemma
Hvernig er að hitta Hemma Hreiðars aftur?
„Það er geggjað, Hemmi er mjög skemmtilegur karakter og býr yfir mikilli reynslu sem hann getur miðlað til manns. Hann kenndi mér mikið á þessu ári sem við vorum saman 2021 og ég hlakka til að læra ennþá meira frá honum."
Spilar hann mikið inn í þína ákvörðun að semja við HK?
„Hann gerir það, eins og ég segi þá á ég mikið ólært í boltanum og ég tel hann geta hjálpað mér að verða að þeim hafsent sem mig langar til þess að verða."
Fyrsta markmið að vinna Lengjudeildina
Hvað langar þig að afreka hjá HK?
„Mig langar að byrja á að vinna Lengjudeildina og koma klúbbnum aftur í efstu deild þar sem hann á heima. Svo langar mig að vera hluti af einhverju stærra þegar þangað er komið. Ég hlakka mikið til nýrra áskoranna," segir Haukur.
Athugasemdir