Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, er við það að skrifa undir nýjan samning við félagið. Sky Sports greinir frá þessu.
Nýji samningurinn sem portúgalinn er að skrifa undir rennur út árið 2027. Bæði Bruno og stjórnarmenn Manchester United eru mjög ánægðir með að hann sé að skrifa undir nýjan samning við félagið.
Bruno Fernandes kom til Manchester United í janúar árið 2020 frá Sporting Lisbon. Síðan þá hefur hann spilað 234 leiki fyrir félagið og skorað 79 mörk í öllum keppnum. Hann er þekktur fyrir að vera alltaf til staðar og er sárasjaldan meiddur.
Portúgalinn skapaði flestu færin í ensku úrvalsdeildinni í fyrra eða 114 færi talsins. En í fyrra skoraði hann 15 mörk í 48 leikjum í öllum keppnum.
Fyrir seinasta tímabil varð Bruno fyrirliði Manchester United og tók við bandinu af Harry Maguire sem hafði verið með bandið í þrjú tímabil í röð. Þetta eru gleðitíðindi fyrir stuðningsmenn Manchester United.