Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 11. september 2018 23:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðurkennir mistök gegn Sviss - „Hafði tröllatrú á þessu"
Icelandair
Erik Hamren, Freyr og markvarðarþjálfarinn Lars Eriksson. Þetta er nýtt þjálfarateymi Íslands.
Erik Hamren, Freyr og markvarðarþjálfarinn Lars Eriksson. Þetta er nýtt þjálfarateymi Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, mætti í sett hjá Herði Magnússyni og félögum á Stöð 2 Sport eftir 3-0 tapið gegn Belgíu í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta voru mjög ódýr mörk. Við vorum í töluverðu basli með nærstöngina í föstum leikatriðum og það er eitthvað sem við þurfum að skoða vel," sagði Freyr. „Mér fannst þetta mikilvæg frammistaða. Ég veit að við erum ekki ánægðir með að tapa 3-0 á heimavelli en það er stutt síðan við áttum skelfilegum leik og biðum afhroð."

„Við þurftum að finna stoltið, fara í grunngildin og vinna okkur út frá því."

Ísland spilaði 4-4-2 út í Sviss síðastliðinn laugardag í fyrsta leik Þjóðadeildarinnar. Leikurinn endaði með 6-0 sigri Sviss, en margir settu spurningamerki við það að spila með tvo framherja gegn eins sterku liði og Sviss. Freyr viðurkennir að það hafi verið mistök.

„Það eru klár mistök. Við áttum líka að grípa fyrr inn í það. Við berum báðir ábyrgð en við verðum að gefa Erik smá tíma og svigrúm til að komast inn í þetta," segir Freyr.

„Hann þarf að átta sig á hreyfingu leikmanna. Hann hafði tröllatrú á að Jón Daði og Björn Bergmann myndu taka meira til sín og það bara gekk ekki. Þetta eru mistök og við viðurkennum það þegar við gerum mistök."

Freyr endaði viðtalið á því að segja: „Við verðum að standa saman leikmenn, þjálfarar, stuðningsmenn og við öll. Þetta mun taka tíma."

Viðtalið við Frey má sjá í heild sinni með því að Smella hér.
Athugasemdir
banner
banner