Arsenal á góða möguleika á að fá Rodrygo - Atletico leggur allt kapp á að fá Romero - West Ham hafnaði tilboði í Kudus
   mán 11. nóvember 2019 08:45
Elvar Geir Magnússon
Tyrklandi
Ótrúleg velgengni gegn Tyrkjum
Icelandair
Ragnar Sigurðsson hefur fundið sig vel gegn Tyrklandi.
Ragnar Sigurðsson hefur fundið sig vel gegn Tyrklandi.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ísland - Tyrkland 2014.
Ísland - Tyrkland 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Ísland mætir Tyrklandi í Istanbúl á fimmtudaginn og Moldóvu í Kisínev 17. nóvember. Ísland þarf að vinna báða leiki og treysta á að Tyrkir misstígi sig gegn Andorra í lokaumferðinni til að komast á EM í gegnum riðlakeppnina.

Tyrkland hefur verið á flottu skriði, mikil bæting hefur verið á liðinu, og eru heimamenn töluvert sigurstranglegra liðið á fimmtudaginn. Ísland hefur þó haft ótrúlega gott tak á Tyrkjunum í gegnum árin.

Einhverra hluta vegna virðist íslenska liðið alls ekki henta því tyrkneska. Liðin hafa tólf sinnum mæst í A-landsleikjum og Ísland hefur unnið átta af þeim leikjum, Tyrkir tvo.

Hér má sjá stutta upprifjun af viðureignum okkar gegn Tyrklandi á tímum gullkynslóðarinnar.

Ísland 3 - 0 Tyrkland (september 2014)
Jón Daði Böðvarsson lék sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landsliðið og hélt upp á hann með marki í 3-0 sigri í undankeppni EM. Gylfi Þór Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu hin mörkin.
Maður leiksins: Gylfi

Tyrkland 1 - 0 Ísland (október 2015)
Ísland var búið að tryggja sér sæti á EM fyrir leikinn en með sigrinum tryggðu Tyrkir sér þátttökuréttinn. Sigurmarkið kom undir lokin en það voru gríðarleg læti í Konya þar sem leikurinn fór fram.
Maður leiksins: Kári

Ísland 2 - 0 Tyrkland (október 2016)
Theodór Elmar Bjarnason og Alfreð Finnbogason skoruðu mörkin tvö í fyrri hálfleik þegar Ísland vann frábæran sigur í undankeppni HM.
Maður leiksins: Jói Berg

Tyrkland 0 - 3 Ísland (október 2017)
Ísland lék nánast hinn fullkomna leik og slökkti í heimamönnum í Eskisehir. Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason og Kári Árnason skoruðu mörkin. Jón Daði Böðvarsson lagði upp tvö mörk og gerði varnarmönnum Tyrkja lífið leitt með baráttu sinni allan leikinn. Með sigrinum komst Ísland langleiðina á HM.
Maður leiksins: Jón Daði

Ísland 2 - 1 Tyrkland (júní 2019)
Ísland vann fyrri leikinn gegn Tyrklandi í yfirstandandi riðlakeppni. Strákarnir okkar komust í 2-0 og staðan var 2-1 í hálfleik. Ekkert var skorað eftir hlé. Ragnar Sigurðsson var frábær í leiknum, stóð vaktina virkilega vel í vörninni og skoraði tvö mörk og hefði getað skorað fleiri eftir föst leikatriði. Hann var síógnandi.
Maður leiksins: Raggi Sig
Athugasemdir