Norska úrvalsdeildin fór af stað í gær þegar Aron Elís Þrándarson og félagar í Álasundi fögnuðu 1-0 sigri gegn Stabæk. Aron Elís nefbrotnaði í leiknum.
„Ég fékk sendingu innfyrir og ætlaði að skalla boltann til hliðar, ég fékk högg og sá allt svart í tvær sekúndur. Svo er sjúkraþjálfarinn eitthvað að hrista mig. Nefið var brotið, mig svimaði og var ekki almennilega í sambandi," sagði Aron við Tómas og Elvar í útvarpsþættinum Fótbolti.net í dag.
„Ég var keyrður upp á spítala þar sem mér var sagt að nefið yrði sett á réttan stað eftir svona þrjá daga þegar bólgan er gengin niður."
Aron býst við að vera með í næstu umferð en hann þarf þó að spila með grímu. „Það er grjóthart að spila með grímu," segir Aron en honum lýst vel á tímabilið hjá Álasundi.
„Ég tel okkur vera betri en í fyrra, við erum með meiri breidd. Okkur er víst spáð botnbaráttu en það er bara fínt. Ég held að það sé klárt að við séum ekki að fara í botnbaráttu, við erum að horfa á efri hlutann."
Aron er að spila sem vinstri kantmaður í 4-4-1-1 leikkerfi Álasunds.
„Þegar ég var hjá Víkingi þurfti ég ekkert að gera í varnarleiknum. Það tók hellings tíma fyrir mig þegar ég kom út að breyta því, maður var vanur því að fá boltann og búa eitthvað til. Maður er orðinn heilsteyptari leikmaður þegar maður spilar á kantinum og þarf að sinna varnarleik. Auðvitað er holan númer eitt og verður það alltaf en maður verður að geta spilað eitthvað annað líka. Þegar líða fer á vonast ég til að fara aftur á minn stað."
Norska deildin er mjög áhugaverð í ár, ekki síst vegna komu stórstjarna eins og John Arne Riise sem er orðinn liðsfélagi Arons. Þá er Eiður Smári Guðjohnsen kominn til Model.
„Eiður er kallaður Stjarnan í Molde og það er helvíti mikil pressa á honum," segir Aron en viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan. Þar talar hann meðal annars um landsliðsdrauma sína.
Sjá einnig:
Upptaka af útvarpsþættinum í heild sinni
Athugasemdir




