banner
   fim 12. maí 2022 21:59
Brynjar Ingi Erluson
Conte um Arteta: Hann kvartar rosalega mikið
Antonio Conte og Mikel Arteta takast í hendur í kvöld
Antonio Conte og Mikel Arteta takast í hendur í kvöld
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Antonio Conte, stjóri Tottenham, er orðinn þreyttur á að hlusta á Mikel Arteta kvarta svona mikið eftir leiki en Conte ræddi við fjölmiðla eftir 3-0 sigurinn á Arsenal í kvöld.

Conte fagnaði góðum sigri á Arsenal og er Meistaradeildarbaráttan vel á lífi en aðeins eitt stig er á milli liðanna þegar tveir leikir eru eftir.

„Þetta eru svo sannarlega góð úrslit. Það mikilvægasta var að ná í þrjú stig og með því getum við haldið okkur í baráttunni um Meistaradeildarsæti."

„Þetta var mjög erfitt því þegar þú þarft að vinna þá er þetta alltaf erfiðara. Ég veit af þessari pressu sem er á herðum okkar. Það að spila af þessum krafti og ástríðu gerir mig ánægðan."

„Ég verð að þakka leikmönnunum og stuðningsmönnum því andrúmsloftið var magnað. Þeir ýttu okkur áfram allan leikinn og nú bið ég þá um að gera það sama á sunnudag því það er annar leikur sem við verðum að vinna gegn Burnley. Við erum að spila gegn liði sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni,"
sagði Conte.

Hann var spurður út í vítaspyrnuna sem liðið fékk í fyrri hálfleiknum og rauða spjaldið á Rob Holding.

„Þetta var frekar augljóst í báðum atvikum. Það er eðlilegt að kvarta þegar þú tapar en Holding átti skilið að fá gult spjald fyrr í leiknum og dómarinn ákvað að bíða aðeins. Þetta var mjög erfiður dagur fyrir hann gegn Son."

Arteta kvartaði óbeint yfir dómgæslunni í viðtali eftir leik en hann sagðist ekki vilja tjá sig um einstök atvik annars færi hann í sex mánaða bann. Conte er orðinn þreyttur á þessu kvarti.

„Ég heyri Arteta alltaf kvarta rosalega mikið. Hann þarf að einbeita sér meira að starfinu og hætta að kvarta svona mikið. Hann var að byrja í þessu starfi. Það að hlusta á þjálfara kvarta svona mikið er ekki gott. Ég sagði tildæmis ekkert um það sem gerðist með Fabinho þegar við mættum Liverpool," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner