Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 12. ágúst 2022 16:03
Fótbolti.net
Skrítnar sögur um Elínu eftir EM - „Það er víst algjört kjaftæði"
Elín Metta Jensen.
Elín Metta Jensen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elín Metta er öflugur leikmaður.
Elín Metta er öflugur leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elín Metta Jensen hefur komið inn á sem varamaður í síðustu tveimur leikjum Vals eftir að hafa ekki verið í hóp gegn Stjörnunni í fyrsta leik eftir EM-pásu.

Matthías Guðmundsson, aðstoðarþjálfari Vals, sagði eftir leik gegn Þór/KA - þar sem Elín kom inn á sem varamaður - að hún hefði verið að glíma við erfiða flensu eftir Evrópumótið og þess vegna hefði hún ekki verið í hóp gegn Stjörnunni. Annars er hún algjör lykilmaður í Val.

Sú saga hefur verið á kreiki að Elín hafi verið ósátt við spiltíma sinn með íslenska landsliðinu á EM og því ákveðið að taka sér pásu frá fótbolta þegar hún kom heim, en þær skrýtnu sögur eru víst ekki sannar.

Rætt var um þetta mál í Heimavellinum fyrr í þessari viku.

„Ég spurði Matta Guðmunds, aðstoðarþjálfara, út í þetta eftir leikinn á móti Þór/KA og þá sagði hann að hún hefði verið veik eftir EM og hún væri að koma til baka. Þá fóru sögusagnir á loft að hún væri pirruð eftir EM og væri að hugsa um að hætta, en það er víst algjört kjaftæði," sagði Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson í Heimavellinum.

„Ég fékk það sent í gær að það væri algjört kjaftæði, það hefði ekkert þannig verið í kortunum og það er bara áfram gakk."

„Bikar, Meistaradeild og titilbarátta framundan. Þetta væri skrítinn tímapunktur til ákveða eitthvað svona," sagði Mist Rúnarsdóttir.

Elín Metta, sem er 27 ára, er einn besti markaskorari sem hefur komið frá Íslandi. Hún tók sér pásu frá fótbolta síðasta vetur til að einbeita sér að krefjandi námi sem hún var í. Hún á eflaust mikið eftir á ferli sínum - allavega miðað við aldur.

„Ég er búin að vera í krefjandi námi. Ég var á fjórða ári í læknisfræði núna í vetur. Það reyndi á og það var erfitt að púsla því saman með fótboltanum. Það var ástæðan fyrir því að ég fékk einhverjar vikur til að einbeita mér að náminu," sagði Elín Metta við Fótbolta.net fyrir EM.

„Það gekk bara upp að lokum. Ég er þvílíkt ánægð að vera komin aftur. Ég er búin með skólann núna og er komin í sumarfrí. Þannig að það er bara fótbolti núna."

Elín Metta skoraði í 0-5 sigri gegn Keflavík á dögunum og er hún búin að gera fimm mörk í 11 leikjum í sumar. Það verður áhugavert að sjá hvort hún muni byrja í kvöld þegar Valur mætir Stjörnunni í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
Heimavöllurinn: Svakalegur seinni á Samsung, ótrúlegt XG á Akureyri og línulaust í Dalnum
Athugasemdir
banner
banner