Matija Popovic er 19 ára sóknartengiliður sem var talinn gífurlega efnilegur fyrir tveimur árum síðan.
Manchester City og AC Milan voru sterklega orðuð við hann veturinn 2023-24 en hann endaði hjá Napoli.
Hann átti að vera ein skærasta vonarstjarna unglingaliðsins hjá Napoli en stóðst ekki væntingarnar, eftir að hafa verið besti leikmaður unglingadeildarinnar í Serbíu og lykilmaður í U17 og U19 landsliðunum.
Núna hefur dvöl hans hjá Napoli tekið enda. Hann virtist vera á leið aftur til uppeldisfélagsins Partizan Belgrad en það varð ekkert úr þeim skiptum svo hann skipti þess í stað yfir í rússneska boltann.
Hann er búinn að skrifa undir samning við stórveldið CSKA Moskvu, sem fær þó ekki að keppa neina keppnisleiki í Evrópu vegna stríðsins.
Kaupverðið er óuppgefið en talið er að það nemi ekki nema um hálfri milljón evra. Napoli heldur 10% af endursöluvirði leikmannsins.
Athugasemdir