Eiður Aron Sigurbjörnsson gekk til liðs við Njarðvík í dag. Hann fylgir Davíð Smára Lamude til félagsins en þeir unnu saman hjá Vestra. Fótbolti.net ræddi við Eið Aron eftir undirskriftina.
„Þetta var bara eitt símtal í Davíð, hann er sannfærandi einstaklingur og eftir það var nokkuð ljóst hvert ég var að fara," sagði Eiður Aron.
„Ég fundaði með nokkrum liðum og var kominn svolítið langt en ég vildi halda áfram að vinna með Davíð og þegar við töluðum saman var í rauninni ekkert annað sem heillaði mig jafn mikið og þetta verkefni."
Njarðvíik hafnaði í 2. sæti Lengjudeildarinnar síðasta sumar og tapaði gegn Keflavík í undanúrslitum umspilsins.
„Eins og ég horfi á þetta er markmið númer eitt að vinna deildina og svo er alltaf hægt að gera einhverja bikargloríu. Þetta er frábært lið sem ég er að koma í. Ég er mjög bjartsýnn fyrir áframhaldandi skref upp á við."
Athugasemdir























