Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 12. desember 2019 15:51
Hafliði Breiðfjörð
Atli Viðar: Enginn fótur fyrir því að ég ætlaði í mál við FH
Atli Viðar var farsæll hjá FH. Hann segir ekkert til í því að hann hafi ætlað í mál við félagið.
Atli Viðar var farsæll hjá FH. Hann segir ekkert til í því að hann hafi ætlað í mál við félagið.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Atli Viðar Björnsson fyrrverandi framherji FH segir að það hafi ekki hvarflað að sér að fara í mál við félagið og enginn fótur sé fyrir því.

Hjörvar Hafliðason þáttarstjórnandi í hlaðvarpsþættinum Dr. Football sagðist í þættinum í dag hafa fengið fjölda ábendinga þess efnis að Atli Viðar ætti inni peninga hjá FH og spurði Kristján Óla Sigurðsson annan sérfræðinganna í þættinum út í málið.

„Hann var á leiðinni í málaferli við félagið," sagði Kristján Óli og Hjörvar greip inní og spurði út í upphæðina. „Þetta hleypur á einhverjum milljónum. Þeir náðu að stoppa málaferlin í bili. Ég hef ekki heyrt hvort greiðslurnar séu komnar eða ekki, ég væri væntanlega búinn að heyra það því ég er með alla anga úti," hélt Kristján Óli áfram.

Atli Viðar sagði í samtali við Fótbolta.net í dag að ekkert væri til í því að hann hafi ætlað í málaferli við FH.

„Fyrir það fyrsta koma mín launamál öðrum ekki við," sagði Atli Viðar. „Það á samt sama við mig og marga aðra í íþróttahreyfingunni að ég fekk ekki launin alltaf fyrsta hvers mánaðar," hélt hann áfram.

„En það hefur ekki hvarflað að mér í eina sekúndu að fara í mál við FH og það er enginn fótur fyrir því. Ég hef bara átt í góðum samskiptum við þá sem stjórna FH síðan ég hætti."

Atli Viðar gekk í raðir FH um aldamótin árið 2000 og var hjá félaginu í 18 ár þar til hann lagði skóna á hilluna í lok tímabilsins 2018. Hann skoraði á ferli sínum 168 mörk í 398 leikjum í deild og bikar. Auk þess á hann að baki 4 leiki fyrir A-landslið Íslands.
Athugasemdir
banner
banner
banner