Franski miðjumaðurinn N'Golo Kanté er nálægt því að semja við tyrkneska stórveldið Fenerbahce en þetta herma heimildir NY TImes.
Kanté hefur spilað síðustu ár með Al Ittihad í Sádi-Arabíu eftir að hafa átt frábær ár hjá Chelsea og Leicester City.
Samkvæmt Times er hann nú tilbúinn að yfirgefa Al Ittihad og er hann sagður á leið til Fenerbahce í Tyrklandi.
Viðræður eru komnar langt á veg en það er Devin Özek, yfirmaður íþróttamála hjá Fenerbahce, sem sér um viðræðurnar.
Fenerbahce er vongott um að geta gengið frá samkomulagi á næstu dögum. Ekki er ljóst hvort hann muni koma í þessum mánuði eða hvort hann fari til Tyrklands þegar samningur hans við Al Ittihad rennur út í sumar.
Kanté, sem er 34 ára gamall, ætlar sér að fara með franska landsliðinu á HM í sumar, en hann er í miklu uppáhaldi hjá Didier Deschamps, þjálfara liðsins, og var mikilvægur hlekkur er Frakkar unnu HM árið 2018.
Athugasemdir


