fös 13. mars 2020 14:00
Magnús Már Einarsson
Breiðablik seldi leikmenn fyrir 96,5 milljónir í fyrra
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik seldi leikmenn fyrir 95,5 milljónir á síðasta ári en þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var afgreiddur á framhaldsaðalfundi í gær.

Rekstrartekjur voru 451 milljón króna eftir að hafa verið 323 milljónir árið 2018. Hagnaður var á rekstri Breiðabliks upp á 11,5 milljónir króna en félagið segir frá þessu í fréttatilkynningu.

Fréttatilkynning frá Breiðabliki
Heildar rekstrartekjur knattspyrnudeildar Breiðabliks eru 451 mkr. en voru 323 mkr. árið 2018. Hækkunin nemur 128 mkr. og skýrist af sölu og sölutengdum greiðslum vegna leikmanna sem hækka um 44 mkr., tekjur vegna Evrópukeppna karla og kvenna nema um 63 mkr. á árinu 2019 en aðrir liðir hækka samtals um 21 mkr.

Helstu tekjuliðir félagsins 2019 eru (í milljónum króna):
Æfingagjöld 115,7
Sala leikmanna 95,5
Framlög og styrkir 77,0
Evrópukeppni 62,7
Mótahald 44,3
Aðrar tekjur 56,1
Samtals 451,3

Rekstrargjöld
Heildar rekstargjöld Knattspyrnudeildar nema 437 mkr. 2019 en voru 338 mkr. 2018. Þau hækka því um 99 mkr. Launakostnaður og kostnaður við rekstur allra flokka félagsins hækkar um 50 mkr. og kostnaður vegna þátttöku í mótum hækkar um 30 mkr. sem er vegna þátttöku meistaraflokka félagsins í Evrópukeppni og þátttöku yngri flokka í afreksferðum á árinu. Aðrir liðir hækka samtals um 19 mkr.

Helstu kostnaðarliðir félagsins 2019 eru (í milljónum króna):
Þjálfun og yfirstjórn 170,3
Leikmenn og annar kostnaður
við rekstur meistaraflokka 120,0
Þátttaka í mótum 85,5
Annar kostnaður 61,4
Samtals 437,2

Hagnaður ársins 2019 er því 11,5 mkr. en tap varð á rekstri ársins 2018 að fjárhæð 16 mkr.

Skipting á milli unglingastarfs og eldri flokka
Tekjur af unglingastarfi félagsins nema 175,6 mkr. og heildarkostnaður er 172,8 mkr. Tekjur eldri flokka nema 275,6 mkr. og heildarkostnaður er 264,3 mkr.

Áætlun ársins 2020
Áætlun vegna ársins 2020 gerir ráð fyrir sambærilegum rekstri og var árið 2019. Heildartekjur samkvæmt áætlun verða 425 mkr., heildargjöld 413 mkr. og gert er því ráð fyrir að hagnaður ársins verði um 12 mkr. Það er gleðiefni að tekist hefur að snúa við tapi á rekstrinum 2018 í lítilsháttar afgang 2019, en um leið má öllum vera ljóst hversu vandmeðfarinn rekstur á svo stórri knattspyrnudeild er og mikilvægi þess að hafa gott eftirlit og stjórn á öllum útgjöldum.
Athugasemdir
banner
banner