Rodrygo orðaður við Liverpool - Mörg félög í Sádi-Arabíu vilja Casemiro - Dortmund hefur áhuga á Greenwood
   lau 13. apríl 2024 18:42
Brynjar Ingi Erluson
England: Man Utd þarf kraftaverk til að komast í Meistaradeildina
Bruno Fernandes gerði bæði mörk United
Bruno Fernandes gerði bæði mörk United
Mynd: Getty Images
Dominic Solanke skorar fyrra mark Bournemouth
Dominic Solanke skorar fyrra mark Bournemouth
Mynd: Getty Images
Bournemouth 2 - 2 Manchester Utd
1-0 Dominic Solanke ('16 )
1-1 Bruno Fernandes ('31 )
2-1 Justin Kluivert ('36 )
2-2 Bruno Fernandes ('65 , víti)

Manchester United þarf algert kraftaverk til þess að komast í Meistaradeild Evrópu á næsta ári en liðið gerði í dag 2-2 jafntefli við Bournemouth á Vitality-leikvanginum í Bournemouth.

Gestirnir fengu enga draumabyrjun. Hinn 19 ára gamli Willy Kambwala var í vörn United og var það hann sem gerði mistök sem kostuðu United mark.

Boltinn kom í átt að Kambwala sem virtist vera með allt í teskeið en svo var aldeilis ekki. Dominic Solanke sýndi styrk sinn, stal boltanum af Kamwbala, fíflaði hann til og þrumaði síðan boltanum neðst í vinstra hornið. Óverjandi fyrir André Onana í markinu.

Man Utd var ekki lengi að svara. Fimmtán mínútum síðar jafnaði Bruno Fernandes. Leikmenn Bournemouth hættu nánast að spila þar sem þeir töldu að brotið hafi verið á leikmanni þeirra. United hélt áfram að sækja og fékk Alejandro Garnacho boltann, sem kom honum inn á Fernandes. Portúgalinn þrumaði boltanum upp í þaknetið. VAR skoðaði brot í aðdragandanum en sá ekkert athugavert og markið gott og gilt.

Heimamenn sköpuðu sér fullt af álitlegum færum í fyrri hálfleiknum og kom því lítið á óvart þegar Justin Kluivert kom liðinu í 2-1 aðeins fimm mínútum síðar. Hann fékk risastórt svæði vinstra megin við teiginn, keyrði í átt að marki og setti boltann niðri vinstra megin.

Milos Kerkez átti þá skalla í slá og Kluivert klúðraði dauðafæri áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Þegar tæpur hálftími var til leiksloka fengu United-menn vítaspyrnu er Adam Smith handlék boltann eftir skot Kobbie Mainoo. Fernandes tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi. Annað mark hans í leiknum.

Markið var gegn gangi leiksins og leikmenn Bournemouth vafalaust svekktir með að hafa klúðrað öllum þeim úrvalsfærum sem þeir fengu.

Seint í uppbótartíma dæmdi dómara leiksins vítaspyrnu er Kambwala tók Ryan Christie niður. Atvikið var auðvitað skoðað betur og þá kom í ljós að brotið átti sér stað rétt fyrir utan teiginn og vítaspyrnudómurinn dreginn til baka.

Bournemouth náði ekki að nýta sér aukaspyrnu á hættulegum stað og lokatölur því 2-2. Liðin deila stigunum í dag en bæði lið svekkt með það. Bournemouth taldi sig eiga meira skilið úr leiknum og United er svo gott sem úr baráttunni um Meistaradeildarsæti.

Liðið er í 7. sæti með 50 stig, tíu stigum frá Aston Villa og Tottenham þegar sex leikir eru eftir. Bournemouth er í 12. sæti með 42 stig og hefur nú formlega bjargað sér frá falli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner