Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 13. maí 2021 21:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Blikar glaðir, Almarr hetjan og Stjarnan strögglar
Mikkelsen skoraði þrennu.
Mikkelsen skoraði þrennu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Almarr var hetja Vals.
Almarr var hetja Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar fara mjög vel af stað.
Víkingar fara mjög vel af stað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru þrír leikir að klárast í Pepsi Max-deildinni. Leikirnir í kvöld hafa boðið upp á mikla skemmtun og það er lifna við deildinni, svo sannarlega.

Blikar settu í fluggír
Fyrstu tveir leikirnir í deildinni voru vonbrigði fyrir Breiðablik; þeir töpuðu fyrir KR á heimavelli og gerðu jafntefli við nýliða Leiknis.

Breiðablik ætlar sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn og í kvöld sýndu þeir hvað þeir geta gert. Þeir mættu nýliðum Keflavíkur á Kópavogsvelli og tóku forystuna á 11. mínútu. Thomas Mikkelsen skoraði af vítapunktinum eftir að Nacho Heras braut af sér.

Þetta var þolinmæðisverk fyrir Blika en þeir voru alltaf með tögl og haldir á leiknum. Á fjögurra mínútna kafla í seinni hálfleiknum völtuðu þeir yfir Keflvíkinga. Mikkelsen fullkomnaði þrennu sína og Kristinn Steindórsson setti kirsuberið á tertuna með því að skora fjórða markið.

Breiðablik er með fjögur stig og situr núna í fimmta sæti deildarinnar. Keflavík er í sjöunda sæti með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina.

Almarr hetja Vals gegn HK
Íslandsmeistarar Vals voru nálægt því að misstíga sig í kvöld þegar þeir fengu HK í heimsókn á Hlíðarenda. Stefán Alexander Ljubicic kom HK yfir á 35. mínútu. „Það held ég nú! Það er HK sem kemst yfir en Valgeir Valgeirsson á frábæra fyrirgjöf af hægri fyrir markið á Stefan Ljubicic sem stangar hann fram hjá Hannesi Halldórssyni!" skrifaði Stefán Marteinn Ólafsson í beinni textalýsingu.

Það var ákveðið þema í þessum leik að þegar forysta var tekin, að þá var hún ekki langlíf. Fimm mínútum eftir mark HK jafnaði Patrick Pedersen metin eftir frábæra sendingu frá Sigurði Agli Lárussyni.

Staðan var 1-1 í hálfleik en HK-ingar voru flottir í þessum leik. Þeir voru óheppnir að komast ekki yfir áður en danski miðjumaðurinn Christian Köhler skoraði fyrir Val úr aukaspyrnu á 79. mínútu. HK gafst hins vegar ekki upp og þeir jöfnuðu tveimur mínútum síðar. „Fyrirgjöf inn í teig sem dettur fyrir Jón Arnar Barðdal sem á flottan snúning og setur hann í fjærhornið fram hjá Hannesi og Valsmönnum!"

Leikurinn virtist ætla að enda í jafntefli. Það gerðist þó ekki því Almarr Ormarsson skoraði sigurmark Vals í uppbótartíma. „Klafs í teignum sem endar með að boltinn berst út í teig á Almarr sem lætur vaða og boltinn syngur í netinu."

Lokatölur 3-2 og er Valur í öðru sæti deildarinnar með sjö stig. KA er áfram á toppnum á markatölu. HK er í áttunda sæti deildarinnar með tvö stig.

Víkingur flottir en Stjarnan strögglar
Víkingar eru að byrja þetta tímabil mjög vel. Þeir fóru í Garðabæinn í kvöld og unnu flottan sigur á Stjörnunni sem eru að byrja þetta Íslandsmót illa.

Nikolaj Hansen reimaði á sig markaskóna í kvöld og hann skoraði fyrsta mark leiksins á fimmtu mínútu. Hilmar Árni Halldórsson jafnaði fyrir Stjörnuna en Nikolaj svaraði úr vítaspyrnu sex mínútum síðar.

Stjarnan jafnaði aftur fyrir leikhlé. Markið gerði Tristan Freyr Ingólfsson, hans fyrsta mark í Pepsi Max-deildinni og var það stórglæsilegt; með skoti fyrir utan teig.

Í byrjun seinni hálfleiks komust Víkingar aftur yfir eftir hornspyrnu. „PABLO MEÐ SPYRNUNA BEINT Á KOLLINN Á JÚLLA SEM STANGAR BOLTANN Í NETIÐ!!!" skrifaði Baldvin Már Borgarsson í beinni textalýsingu.

Stjarnan fann ekki lausnir til að finna leikinn og lokatölur 3-2 fyrir Víking í Garðabæ. Stjarnan hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Þorvalds Örlygssonar og er liðið á botninum sem stendur með eitt stig. Víkingur er í þriðja sæti með sjö stig.

Valur 3 - 2 HK
0-1 Stefan Alexander Ljubicic ('35 )
1-1 Patrick Pedersen ('40 )
2-1 Christian Thobo Kohler ('79 )
2-2 Jón Arnar Barðdal ('81 )
3-2 Almarr Ormarsson ('91 )
Lestu nánar um leikinn

Breiðablik 4 - 0 Keflavík
1-0 Thomas Mikkelsen ('11 , víti)
2-0 Thomas Mikkelsen ('67 )
3-0 Thomas Mikkelsen ('68 )
4-0 Kristinn Steindórsson ('70 )
Lestu nánar um leikinn

Stjarnan 2 - 3 Víkingur R.
0-1 Nikolaj Andreas Hansen ('5 )
1-1 Hilmar Árni Halldórsson ('30 )
1-2 Nikolaj Andreas Hansen ('36 , víti)
2-2 Tristan Freyr Ingólfsson ('45 )
2-3 Júlíus Magnússon ('51 )
Lestu nánar um leikinn

Leikur FH og ÍA er enn í gangi og kemur úrslitafrétt um þann leik síðar í kvöld
Athugasemdir
banner
banner
banner