Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn í liði FC Noah sem vann armenska bikarinn með 3-1 sigri gegn Ararat-Armenia í dag.
Staðan var jöfn í hálfleik en Noah skoraði tvö mörk í síðari hálfleik til að innsigla titilinn. Þetta er í annað sinn sem Noah vinnur armenska bikarinn í sögu sinni en á dögunum tryggði liðið sér sinn fyrsta efstudeildartitil.
Gummi er mikilvægur hlekkur í sterku liði Noah, sem gerði markalaust jafntefli við Víking R. í Sambandsdeildinni síðasta haust en komst ekki áfram í útsláttarkeppnina.
Lærisveinar Milos Milojevic í liði Al-Wasl unnu þá dýrmætan sigur á útivelli gegn Al-Urooba í efstu deild í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Milos mun yfirgefa félagið eftir tímabilið en liðið er í hörkubaráttu um annað sæti deildarinnar á lokametrunum.
Sigurinn í dag var sá þriðji í röð í deildinni og eru lærlingar Milos í fjórða sæti, aðeins tveimur stigum frá öðru sætinu sem veitir þátttökurétt í deildakeppni Meistaradeildar Asíu á næstu leiktíð.
Birkir Bjarnason kom að lokum við sögu í gríðarlega dýrmætum sigri Brescia í B-deild ítalska boltans.
36 ára gömlum Birki, sem fagnar 37 ára afmæli eftir tvær vikur, var skipt inn á 66. mínútu á heimavelli gegn Reggiana í lokaumferð deildartímabilsins.
Brescia þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að forðast fall niður í C-deildina og tókst ætlunarverk sitt að lokum.
Brescia lýkur því keppni í 15. sæti deildarinnar með 43 stig og forðast fallbaráttuna á markatölu.
Frosinone og Salernitana fara í umspilsleiki til að reyna að halda sæti sínu í deildinni á meðan fyrrum stórveldi Sampdoria er fallið niður í C-deildina eftir markalaust jafntefli.
Noah 3 - 1 Ararat-Armenia
Al-Urooba 1 - 2 Al-Wasl
Brescia 2 - 1 Reggiana
Athugasemdir