mán 13. júlí 2020 08:33
Magnús Már Einarsson
Man City ekki í bann í Meistaradeildinni (Staðfest)!
Mynd: Getty Images
Manchester City mun sleppa við tveggja ára bann frá Meistaradeildinni en þetta staðfesti íþróttadómstóll Evrópu nú rétt í þessu.

Manchester City var dæmt í bannið í febrúar síðastliðnum fyrir að City hafa falsað skjöl og brotið fjárhagsreglur evrópska knattspyrnusambandsins.

Forráðamenn City voru afar ósáttir við dóminn og ákváðu að áfrýja til íþróttadómstólsins sem komst að þeirri niðurstöðu að bannið eigi ekki að standa.

Manchester City fékk upphaflega sekt upp á 27 milljónir punda vegna málsins en íþróttadómstóllinn hefur einnig lækkað sektina niður í 8,9 milljónir punda.

Þetta þýðir að Manchester City verður með í Meistaradeildinni næsta vetur en þetta breytir landslaginu hjá félaginu töluvert. Óttast var að stjörnuleikmenn gætu farið frá félaginu í sumar ef að bannið myndi standa.

Einnig er ljóst að 5. sætið í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili gefur ekki sæti í Meistaradeildinni eins og möguleiki hefði verið á ef að City hefði farið í bann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner