þri 13. júlí 2021 09:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bjarki Már áfram hjá Al Arabi - Fjölbreytt hlutverk
Bjarki Már Ólafsson hér með Heimi Hallgrímssyni.
Bjarki Már Ólafsson hér með Heimi Hallgrímssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Bjarki Már Ólafsson mun áfram starfa hjá Al Arabi í Katar. Þetta staðfestir Bjarki við Fótbolta.net.

Þetta kom fyrst fram í útvarpsþættinum Fótbolti.net á laugardag.

Bjarki, sem er á 27. aldursári, fór út til Al Arabi 2018 þegar Heimir Hallgrímsson tók við liðinu. Bjarki starfaði sem leikgreinandi og þjálfari í teymi Heimis.

Heimir er hættur sem þjálfari liðsins en Bjarki fékk tilboð um að vera áfram og hann ætlar að þiggja það. Hann framlengir samning sinn um eitt ár við félagið.

„Hlutverkið verður ansi fjölbreytt hjá mér en til að byrja með snýst það að miklu leyti um að finna réttu leikmennina til að styrkja liðið fyrir tímabilið og innleiða skýrari stefnu á því sviði," segir Bjarki.

„Þegar tímabilið hefst mun ég svo halda utan um ýmis konar leikgreiningar, bæði á mótherjum okkar og á okkar eigin liði. Undirbúnings tímabilið fór af stað í gær og á meðan enginn þjálfari hefur tekið til starfa hef ég, ásamt tveimur 'fitness' þjálfurum og markmannsþjálfara, þjálfað liðið fyrstu æfingarnar. Þannig að þetta er ansi fjölbreytt."

Bjarki segir að starfið verði í grunninn það sama og áður þar sem hann fékk mjög mikla ábyrgð hjá Heimi.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson mun leika áfram með Al Arabi og liðið verður því áfram mikið Íslendingalið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner