Enska úrvalsdeildin byrjar næsta föstudag og spennan er farin að magnast.
Kunnuleg andlit snúa aftur á völlinn í deild þeirra bestu en við fáum líka að sjá nokkur ný andlit í þessari uppáhalds deild okkar Íslendinga.
Kunnuleg andlit snúa aftur á völlinn í deild þeirra bestu en við fáum líka að sjá nokkur ný andlit í þessari uppáhalds deild okkar Íslendinga.
BBC tók saman lista yfir tíu leikmenn sem eru að koma nýir inn í deildina og verður gaman að fylgjast með.
Listinn er í engri sérstakri röð.
Riccardo Calafiori (Arsenal) - Calafiori er 22 ára ítalskur varnarmaður sem var í byrjunarliði Ítalíu á EM í sumar. Hann er uppalinn hjá Roma, fór til Basel fyrir þarsíðasta tímabil og lék svo með Bologna á liðnu tímabili. Hann gekk í raðir Arsenal í sumar.
Joshua Zirkzee (Manchester United) - Zirkzee er 23 ára gamall og vakti mikla athygli á sér á síðustu leiktíð fyrir góða frammistöðu með Bologna í ítalska boltanum, þar sem hann kom að 19 mörkum með beinum hætti í 37 leikjum. Rauðu djöflarnir borga rúmlega 40 milljónir evra til að kaupa Zirkzee, sem gerir fimm ára samning við stórveldið.
Savio (Manchester City) - Savinho, betur þekktur sem Sávio, er tvítugur vængmaður sem átti frábært tímabil með Girona á síðustu leiktíð. Hann skoraði 11 mörk og gaf 10 stoðsendingar í öllum keppnum er Girona kom sér í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Niclas Füllkrug (West Ham) - Þýski framherjinn kemur til West Ham fyrir 27.5 milljónir punda og skrifar hann undir fjögurra ára samning við Lundúnafélagið. Fullkrug fór til Dortmund í fyrra frá Werden Bremen en þá var West Ham einnig á eftir honum. Hann er 31 árs og skoraði 15 mörk í 43 leikjum fyrir Dortmund á síðustu leiktíð.
Daichi Kamada (Crystal Palace) - Kamada er 27 ára sóknarsinnaður miðjumaður sem þekkir vel til Oliver Glasner en hann vann með stjóra Crystal Palace hjá Eintracht Frankfurt. Þeir urðu Evrópudeildarmeistarar vorið 2022 og skoraði Kamada úr víti í vítaspyrnukeppninni í úrslitaleiknum.
Lucas Bergvall (Tottenham) - Svíinn var nálægt því að ganga í raðir Barcelona á Spáni. Barcelona fékk 8,5 milljóna punda tilboð samþykkt og hafði leikmaðurinn skoðað aðstæður á Spáni, en valdi frekar að fara til Tottenham. Spennandi miðjumaður sem er bara 18 ára gamall.
Jake O'Brien (Everton) - Írskur miðvörður sem var keyptur frá Lyon fyrir 17 milljónir punda. Þessi 23 ára gamli varnarmaður fór í óvænt ævintýri til Frakklands á síðasta ári frá Crystal Palace. Hann gerði flotta hluti með Lyon á eina tímabili sínu þar en hann gerði fjögur mörk í 27 deildarleikjum.
Nikola Milenkovic (Nottingham Forest) - Þessum 26 ára Serba er ætlað að fylla skarð miðvarðarins Moussa Niakhate sem var seldur til Lyon í Frakklandi. Milenkovic á 56 landsleiki fyrir Serbíu og lék alla leiki liðsins á nýafstöðnu Evrópumóti. Hann hóf feril sinn hjá Partizan í Belgrad.
Liam Delap (Ipswich) - Þessi 21 árs gamli enski sóknarmaður gekk ungur að árum til Man City frá Derby en hann kom við sögu í sex leikjum hjá City og skoraði eitt mark. Hann var á láni hjá Hull í Championship deildinni á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði átta mörk í 31 leik.
Dean Huijsen (Bournemouth) - Huijsen er 19 ára gamall miðvörður sem var á láni hjá Roma frá Juventus á síðustu leiktíð. Leikmaðurinn er fæddur í Amsterdam í Hollandi en flutti ungur að árum með fjölskyldu sinni til Spánar. Hann lék með unglingaliði Malaga áður en Juventus keypti hann fyrir þremur árum. Mörg félög sýndu áhuga á að fá hann í sumar en Bournemouth hafði hraðar hendur og landaði honum eftir nokkurra daga viðræður.
Athugasemdir