
Íþróttafréttamaðurinn og sparkspekingurinn Hörður Magnússon skýtur á landsliðsþjálfarann Arnar Gunnlaugsson í Facebook færslu sem hann birti í dag.
Hörður gagnrýnir orð Arnars á blaðamannafundi í gær. En Arnar var harðorður í garð fjölmiðla eftir leik Íslands gegn Úkraínu og sagði að umræðan hafi á köflum verið til skammar. Arnar bætti því við að leikurinn hafi verið besti leikur landsliðsins með bolta frá upphafi ef litið sé til tölfræðiþátta leiksins.
Í færslu Harðar segir hann fótbolta vera úrslitabransa en ekki xG-, aldurs- eða sendingabransa. Þá ætti aðalhugmyndafræðin að vera að ná í úrslit og að hugmyndafræðilegir þjálfarar þurfi að átta sig á því .
Hörður bendir þá á sigur Færeyja gegn Tékklandi og ritar: Ef þið skoðið tölfræðina þá eru þeir undir í öllum tölfræði þáttum nema sem skiptir mestu máli.