
Miðjumaðurinn Sofyan Amrabat hefur slegið í gegn með landsliði Marokkó á HM í Katar.
Marokkó skrifaði söguna um liðna helgi með því að leggja Portúgal að velli í átta-liða úrslitum HM. Marokkó er fyrsta Afríkuríkið sem kemst í undanúrslit HM frá því mótið var stofnað.
Amrabat hefur verið magnaður á miðsvæðinu hjá Marokkó og hlaupið gríðarlega mikið.
Hann spilar með Fiorentina á Ítalíu en stærri félög víða um Evrópu eru farin að sýna honum áhuga. Hann hefur til að mynda verið orðaður við Tottenham og Liverpool á Englandi.
„Við höfum fengið mörg símtöl," viðurkennir Alberto Maria Jimmy Fontana, umboðsmaður leikmannsins. „En við virðum Fiorentina. Þeir ákváðu að veðja á hann. Það er fínt að fá símtal en við eigum frábært samband við Fiorentina. Hann er líka með langan samning."
Það verður áhugavert að sjá hvað gerist með Amrabat en hann verður í eldlínunni á morgun er Marokkó mætir Frakklandi í undanúrslitunum.
Athugasemdir