Man City að undirbúa tilboð í Guehi - Man Utd hyggst ekki fá Rashford aftur - Gomez áfram hjá Liverpool
   mið 14. janúar 2026 09:00
Brynjar Ingi Erluson
„Þungt högg en alls ekki banvænt“
Eddie Howe
Eddie Howe
Mynd: EPA
Yoane Wissa klúðraði dauðafæri í fyrri hálfleik
Yoane Wissa klúðraði dauðafæri í fyrri hálfleik
Mynd: EPA
Eddie Howe segir undanúrslitaeinvígi Newcastle United gegn Manchester City enn vera galopið þrátt fyrir 2-0 tap í fyrri leiknum á St. James' Park í gær.

Antoine Semenyo skoraði snemma í síðari hálfleiknum og þá kom Rayan Cherki með ótrúlega mikilvægt annað mark fyrir City á síðustu mínútu uppbótartímans.

Howe segir annað markið hafa verið þungt högg, en að einvígið lifi enn góðu lífi.

„Þetta er þungt högg en alls ekki banvænt. Við erum enn inn í þessu einvígi og munum berjast. Það var kannski örlítið barnalegt að reyna að sækja mark þegar það var ein mínúta eftir. Við þurftum að verjast, allur strúkturinn var í rugli í þessari stöðu og okkur var refsað. Strákarnir gáfu samt allt í þetta við erfiðar andstæður eftir framlenginguna á laugardag og það var kannski smá þreyta, en ég get ekki kvartað yfir leikmönnunum í dag,“ sagði Howe.

Yoane Wissa byrjaði fremstur hjá Newcastle og fór illa með dauðafæri í fyrri hálfleiknum.

„Þegar ég horfi aftur á þetta þá er hægt að segja að þetta hafi verið stór vendipunktur. Við vildum koma áhorfendum inn í leikinn á meðan Man City vildi gera hið öfuga með því að halda í boltann og róa mannskapinn niður. Yoane er toppleikmaður og er enn reyna finna sitt besta form eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla. Hann hefði kannski skorað hefði þessi leikur farið fram eftir nokkrar vikur.“

„Eina sem ég get gert er að horfa á framlag leikmanna og það var frábært gegn liði sem er líka best í því að afhjúpa þessa þreytu hjá okkur og líka miðað við það framlag sem þeir sýndu gegn Bournemouth á laugardag.“


Stuttu eftir mark Semenyo náði Ganamaðurinn að koma boltanum í netið eftir hornspyrnu en VAR tók sér fimm mínútur í að skoða markið áður en Chris Kavanagh, aðaldómari leiksins, tók ákvörðun um að taka það af vegna rangstöðu á Erling Haaland sem stóð nálægt marklínu er Semenyo skaut boltanum í átt að markinu.

Howe var ánægður með að markið hafi verið dæmt af Man City.

„Það er ekki það að mér sé alveg sama. Ég er ánægður með að markið var tekið af þeim, en ég hef samt enga skoðun á þessu því ég hef ekki séð endursýningu af því,“ sagði Howe í lokin.
Athugasemdir
banner