Arsenal vill Toney - Sancho bannaður frá æfingasvæði Man Utd - Cucurella vill yfirgefa Chelsea í janúar
banner
   þri 14. mars 2023 10:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hitti liðið degi eftir seinna hjartastoppið - „Þetta getur verið áfall"
watermark Emil Pálsson.
Emil Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Heiðursgestur á leik í Kaplakrika í fyrra.
Heiðursgestur á leik í Kaplakrika í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Emil Pálsson lagði skóna á hilluna eftir að hafa farið í tvö hjartastopp með stuttu millibili. Fyrra hjartastoppið átti sér stað í leik með Sogndal í Noregi en þar var lífi hans bjargað með snöggum viðbrögðum sjúkraaðila á vellinum.

Í kjölfarið var þræddur bjargráður í Emil en það er tæki sem er notað til að meðhöndla lífshættulegar hjartsláttartruflanir.

Emil lenti svo í öðru hjartastoppi þegar hann var búinn að fá grænt ljós að fara á fullt aftur í fótboltanum. Hann var þá að æfa með sínu gamla félagi, FH, hér á Íslandi.

„Ég var búinn að fá grænt ljós frá læknum að byrja aftur. Ég var búinn að þjálfa mig upp hjá FH, búinn að mæta á æfingar hjá þeim í viku eða tíu daga. Þá fer ég í annað stopp á æfingu. Það var það sem endaði þetta fyrir mig, fótboltalega séð. Ef þetta gerist tvisvar þá er ekki séns á að halda áfram."

„Eftir fyrra stoppið töluðu læknar um að finna ekki orsökina fyrir þessu, þetta væri 'freak accident'. Christian Eriksen fékk grænt ljós í að halda áfram og það var það sem við vorum að horfa í, að gera það sama og hann gerði. En svo virðist þetta hafa verið eitthvað annað sem hann var með. Þegar ég fer í háan púls koma upp vandamál í hjartanu. Núna er ég með þröskuld sem ég má ekki fara yfir, ég má helst ekki fara yfir 150 púls. Þannig verður það til framtíðar hjá mér," segir Emil en Eriksen lenti í hjartastoppi er hann spilaði leik með Danmörku á EM 2021. Í dag spilar hann fyrir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni.

Emil útskýrði það fyrir læknateymi FH hvað ætti að gera ef hann myndi lenda í öðru hjartastoppi.

„Það var nú meira í djóki en ekki," segir Emil en svo lenti hann í hjartastoppi á æfingu. „Ég útskýrði það hvað ætti að gera ef þetta myndi gerast. Það er mjög einfalt, að fara frá mér og bíða. Þú þarft að bíða í nokkrar sekúndur og sjá hvort bjargráðurinn taki ekki við. Það gekk allt fullkomlega hjá mér og ég er mjög þakklátur."

Liðsfélagar hans í FH urðu vitni að þessu og það er erfitt, en hann fór í Kaplakrika daginn eftir og talaði þar við leikmenn liðsins.

„Ég fór upp í Kaplakrika daginn eftir. Ég held að allir hafi haft gott af því, bæði ég og leikmennirnir. Þetta er mjög óþægilegt fyrir þá að sjá þetta. Þetta gerist mjög hratt, í upphitun. Þetta gerist á 10-15 sekúndum og ég held að flestir leikmennirnir hafi ekki tekið eftir því sem gerðist fyrr en ég var að vakna. Svo eru einhverjir aðrir sem sjá þetta frá byrjun og þetta getur verið áfall fyrir fólk að sjá."

„Það var mjög gott fyrir mig og þá að ég hafi farið strax aftur og sýnt þeim að það væri allt í góðu."

Það er auðvitað erfitt að kveðja fótboltann, það sem þú hefur stundað alla ævi, en Emil þurfti að velja á milli þess að spila fótbolta eða að halda lífi. Það var auðvelt val. Hægt er að hlusta á spjallið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Að halda lífi eða halda áfram í fótbolta
Athugasemdir