Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
banner
   fös 14. júní 2024 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Lille selur lykilmenn í sumar
Mynd: EPA
Olivier Létang, forseti franska félagsins Lille, staðfesti í gær að tvær skærustu stjörnur félagsins munu líklegast fara í sumar.

Hákon Arnar Haraldsson sýndi flotta frammistöðu eftir að hann var keyptur til Lille á síðustu leiktíð en hann gæti verið að missa liðsfélagana Jonathan David og Leny Yoro burt.

„Leny og Jonathan geta yfirgefið félagið í sumar vegna þess að þeir eiga bara eitt ár eftir af samningi. Við munum hlusta á öll tilboð," sagði Létang.

David er 24 ára framherji sem kom að 35 mörkum í 47 leikjum í öllum keppnum. AS Roma og Atlético Madrid eru talin hafa mikinn áhuga á kappanum, sem gæti þó kostað um 30 milljónir evra.

Yoro er 18 ára miðvörður sem festi sig í sessi sem mikilvægur hlekkur í hjarta varnarinnar hjá Lille á nýliðnu tímabili.

Öll stærstu lið Evrópu hafa áhuga á honum en leikmaðurinn sjálfur hefur ákveðið að setja Real Madrid í forgang, þó að PSG, Liverpool, Manchester United og Chelsea séu öll gífurlega áhugasöm.

Talið er að Yoro gæti kostað rúmlega 50 milljónir evra þrátt fyrir að eiga aðeins eitt ár eftir af samningi.
Athugasemdir