
'Við ætlum að gera allt sem við getum til að ná góðum úrslitum og erum mjög bjartsýnir og vongóðir um það'
Klukkan 19:00 annað kvöld tekur Breiðablik á móti Egnatia á Kópavogsvelli í seinni leik liðanna í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Albönsku meistararnir leiða með einu marki eftir 1-0 heimasigur í fyrri leiknum.
Kári Snorrason ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, á Kópavogsvelli í dag.
Kári Snorrason ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, á Kópavogsvelli í dag.
„Stemningin í liðinu er frábær, þetta er með því skemmtilegra sem þú gerir að taka þátt í svona leikjum spila við öðruvísi lið; allt öðruvísi fótbolti, öðruvísi týpur af leikmönnum og leikstíl, og mikið í húfi líka. Þetta er mjög skemmtilegur hluti af tímabilinu," segir Dóri.
Sigurliðið í einvíginu fer áfram í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar og mætir þar pólksu meisturunum í Lech Poznan, en tapliðið fer í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildarinnar og mætir þar tapliðinu úr einvígi búlgarska liðsins Ludogorets og Dinamo Minsk frá Belarús.
„Ég á raunverulega erfitt með að átta mig á því, það er erfitt fyrir mig að ætla að þeir séu eins og einhver önnur lið frá þessu svæði eða eitthvað slíkt. Við höfum nokkur ár í röð, og stundum við meira en eitt lið á tímabili, frá þessu svæði í Evrópu. Leikirnir hafa margir verið sérstakir, sérstaklega þegar liðin hafa getað varið eitthvað, þá hafa þau farið mjög djúpt, tafið leikinn og reynt að gera dómaranum erfitt fyrir. En það var ekkert sem benti til þess í leiknum úti, þeir spiluðu heiðarlega og virkilega góðan leik. Þeir vilja pressa á köflum, halda vel í boltann, mjög góðir fótboltamenn í liðinu. Ég átta mig ekki á því, við gerum bara ráð fyrir hvoru tveggja; að þeir komi til að verja forskotið sitt og eins að þeir spili sinn leik eins og þeir gerðu úti."
„Við þurfum að halda aðeins betur í boltann en við gerðum síðast. Ef þeir koma og pressa á blautu gervigrasi þá eru möguleikar sem voru til staðar úti en kannski erfiðara að framkvæma þar sem ég sé fyrir mér að við getum nýtt okkur. Ef þeir liggja, þá verður þetta þolinmæðisvinna og við erum svo sannarlega búnir að fá æfingu í því í sumar í ellefu leikjum af fjórtán. Við ætlum að vera bæði klárir í að spila hratt í gegnum þá og svo í þolinmæði ef þeir fara djúpt."
„Við ætlum að gera allt sem við getum til að ná góðum úrslitum og erum mjög bjartsýnir og vongóðir um það," segir Dóri.
Hann var spurður út í fagnaðarlæti Egnatia eftir sigurmarkið í fyrri leiknum en Albanarnir fögnuðu innilega og fékk leikmaður á bekknum, Regi Lushkja, sitt annað gula spjald fyrir að fara inn á völlinn. Fór það í taugarnar á ykkur hvernig þeir fögnuðu?
„Nei, við getum ekki haft neina skoðun á því hvernig andstæðingurinn fagnar sínum mörkum. Þeir sýndu okkur mikla virðingu held ég með þessum fagnaðarlátum, veit ekki hvort þeir bjuggust við þessum úrslitum, eðlilegt að menn fagna mörkum, sérstaklega seint í leikjum. Þetta er bara hálfnað, þeir eiga eftir að koma hingað á Kópavogsvöll. En þetta fór ekki neitt í taugarnar á mér," segir Dóri.
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum efst.
Athugasemdir