Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 14. ágúst 2020 17:14
Ívan Guðjón Baldursson
Everton, Vertonghen og Waldschmidt til Benfica (Staðfest)
Everton hefur verið afar eftirsóttur að undanförnu.
Everton hefur verið afar eftirsóttur að undanförnu.
Mynd: Getty Images
Nýr kafli á flottum ferli Vertonghen.
Nýr kafli á flottum ferli Vertonghen.
Mynd: Getty Images
Portúgalska stórliðið Benfica er að leggja mikið púður í að styrkja sig fyrir komandi tímabil og var félagið að staðfesta þrjá nýja leikmenn.

Allir eru þessir leikmenn öflugir en einn þeirra hefur verið afar eftirsóttur að undanförnu, Brasilíumaður að nafni Everton Soares.

Napoli, Arsenal og Everton vildu fá þennan öfluga framherja til liðs við sig en það var Benfica sem hafði betur að lokum. Everton er 24 ára gamall og hefur skorað þrjú mörk í fjórtán A-landsleikjum með Brasilíu. Benfica greiðir 20 milljónir evra fyrir framherjann auk 20% af næstu sölu.

Þá er belgíski varnarjaxlinn Jan Vertonghen einnig kominn til Portúgal en hann er 33 ára gamall og hokinn af reynslu eftir fjórtán ár í atvinnumennsku.

Vertonghen gerði garðinn frægan hjá Ajax og hefur spilað fyrir Tottenham síðustu átta ár, auk þess að eiga yfir 100 leiki að baki fyrir belgíska landsliðið. Hann kemur á frjálsri sölu eftir að samningur hans við Tottenham rann út. Hann skrifar undir þriggja ára samning við Benfica.

Að lokum er Luca Waldschmidt búinn að skrifa undir samning eftir tvö ár hjá Freiburg. Waldschmidt er 24 ára og á þrjá A-landsleiki að baki fyrir Þýskaland. Benfica greiðir 15 milljónir fyrir framherjann auk 7,5% af næstu sölu.

Benfica átti í miklum erfiðleikum í sumar, missti af toppsæti portúgölsku deildarinnar og var þjálfari liðsins, Bruno Lage, rekinn.

Benfica er í mikilli sókn og réði Jorge Jesus fyrr í ágúst. Hann er talinn meðal bestu knattspyrnustjóra Portúgals eftir að hafa náð frábærum árangri með Braga, Benfica og Sporting í heimalandinu auk Al-Hilal í Sádí-Arabíu og Flamengo í Brasilíu.

Félagið ætlar að veita honum alla þá aðstoð sem mögulegt er til að koma Benfica aftur á toppinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner