Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mán 14. desember 2020 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Magnað ár Ingibjargar - Ætlar að verða einn besti miðvörður í heimi
Valin sú besta í Noregi
Ingibjörg í landsleik.
Ingibjörg í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Átt sitt besta ár á ferlinum.
Átt sitt besta ár á ferlinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir; frábærar í hjarta varnarinnar.
Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir; frábærar í hjarta varnarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vilja eflaust margir gleyma árinu 2020, en Ingibjörg Sigurðardóttir er líklega ekki þar á meðal. Inn á fótboltavellinum hefur hún átt stórkostlegt ár.

Hún gekk í raðir Vålerenga í Noregi frá Djurgården í Svíþjóð snemma á árinu. Í gær varð hún bikarmeistari með Vålerenga, en áður hafði liðið tryggt sér deildarmeistaratitilinn í Noregi. Ingibjörg fór fyrir sínu liði og var valin besti leikmaður deildarinnar. Hún hjálpaði þá Vålerenga að komast í 32-liða úrslit Meistaradeildarinnar þar sem liðið mætir Bröndby.

Þá má ekki gleymast að Ingibjörg spilaði stórt hlutverk í íslenska landsliðinu sem tryggði sig inn á EM. Svo sannarlega frábært fótboltaár hjá þessum 23 ára gamla varnarmanni.

„Mér líður mjög vel. Ég er mjög stolt af liðinu og árangrinum sem við höfum náð eftir skrítið tímabil. Þetta er klárlega mitt besta ár á ferlinum," segir Ingibjörg í samtali við Fótbolta.net.

„Það tók góðan tíma að koma liðinu saman og aðlagast. Þjálfarinn er mjög skipulagður og vill að við spilum boltanum mikið með 1-2 snertingum, mikil hreyfing án bolta og mikinn sóknarbolta. Mér finnst það loksins hafa verið að smella saman núna síðustu tvo mánuðina sérstaklega."

„Við erum með stóran hóp og það er mikil og holl samkeppni; allar vilja vera betri og leggja sig 100% fram á æfingum. Ég held að það hafi líka skipt sköpum," segir Ingibjörg.

Hugarþjálfari mikið hjálpað inn á vellinum
Ingibjörg hefur fengið lof fyrir sinn leik persónulega og var hún eins og áður segir valin best í norsku úrvalsdeildinni á dögunum. Jonas Giæver, virtur norskur blaðamaður, segir að Ingibjörg sé sinn uppáhalds leikmaður.

Hún segist hafa fundið meiri stöðugleika í sínum leik og þakkar hún hugarþjálfara Vålerenga fyrir að hjálpa sér mikið.

„Mér finnst ég hafa náð ákveðnum stöðugleika í mínum leik sem ég hef verið að leitast eftir að bæta, ásamt því að ég er betri á boltanum og þolinmóðari að bíða eftir réttu sendingunni," segir Ingibjörg og bætir við:

„Við höfum lagt mikla áherslu á andlegu hliðina og erum með sérstakan hugarþjálfara (e. mental coach) og hún hefur hjálpað mér mikið inn á vellinum."

Það virðist tíðkast í Noregi að félög séu með hugarþjálfara. Það er líka þannig hjá karlaliði Bodö/Glimt þar sem Alfons Sampsted spilar. Bodö/Glimt varð meistari í úrvalsdeild karla.

Ingibjörg telur að norska úrvalsdeildin sé svipuð þeirri sænsku. „Ég myndi segja að hún sé mjög svipuð. Kannski eru bestu tvö liðin í Svíþjóð aðeins sterkari en efstu liðin hjá okkur en allir leikir eru hörkuleikir og það er enginn auðveldur leikur."

Með það markmið að vinna Meistaradeildina
Ingibjörg er með samning áfram við Vålerenga út næstu leiktíð og er hún ánægð hjá félaginu, þó hún stefni hærra á ferlinum.

„Ég er samningsbundin Vålerenga út næsta tímabil. Mér líkar vel við þá þróun og stefnu sem félagið hefur og metnaðinn. Þannig að ég er ánægð hér en auðvitað stefni ég hærra og vil spila í sterkustu deildunum."

Ingibjörg er bara rétt að byrja og ætlar sér að ná langt á fótboltaferli sínum.

„Ég mun setjast niður og fara yfir þetta tímabil, og setja mér markmið fyrir næsta tímabil en fyrir framtíðina þá hef ég lengi haft það markmið að vinna Meistaradeildina og vera ein af bestu miðvörðum í heimi," segir Ingibjörg Sigurðardóttir, sem hefur átt frábært ár í fótboltanum.

Hér að neðan má sjá þegar Ingibjörgu var tilkynnt það að hún væri leikmaður ársins í Noregi.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner