Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mið 15. mars 2023 09:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Nýjungar í íslenska boltanum: Gullmerki og varaliðsdeild
Pætur Petersen, leikmaður KA, með Bestu deildar merkið á erminni.
Pætur Petersen, leikmaður KA, með Bestu deildar merkið á erminni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalið Vals lyftir Íslandsmeistarabikarnum í fyrra.
Kvennalið Vals lyftir Íslandsmeistarabikarnum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenskur Toppfótbolti, hagsmunasamtök þeirra félaga sem reka lið í tveimur efstu deildum karla og kvenna, sendu í gær frá sér fréttabréf.

Þar kemur fram að stefnt sé á nokkrar nýjungar í íslenska boltanum í sumar. Þar á meðal munu Íslandsmeistararnir spila með gullmerki á annarri erminni og þá er stefnt á að búa til varaliðsdeild í meistaraflokki karla.

Það hefur tíðkast að félög í ensku úrvalsdeildinni séu með gullmerki á ermum leikmannabúninga sinna árið eftir meistaratitil.

Núna verður það þannig í Bestu deildinni að Íslandsmeistararnir fá gullmerki.

„Öllum liðum í Bestu deildunum ber að leika með merki deildarinnar á annarri ermi búningsins en sú nýbreytni verður tekin upp tímabilið 2023 að Íslandsmeistarar fyrra árs leika með gulllitað merki deildarinnar," segir í fréttabréfi ÍTF.

„Kvennalið Vals og karlalið Breiðabliks munu því leika með gullmerki deildarinnar tímabilið 2023."

Einnig kemur fram í fréttabréfinu að félög í efstu tveimur deildum karla hafi samþykkt að stofna varaliðsdeild til hliðar við hefðbundna deildarkeppni.

„Nokkur umræða hefur verið um varaliðsdeild eða aðrar lausnir til þess auka krefjandi verkefni fyrir þá leikmenn sem fá ekki næg verkefni í meistaraflokki í hefðbundnu fyrirkomulagi," segir í fréttabréfinu en stefnt er á að varaliðsdeildin muni hefja göngu sína í sumar.

Í fyrra var skipaður starfshópur um varaliðsdeild í meistaraflokki kvenna en sá starfshópur skilaði af sér skýrslu til stjórnar KSÍ í janúar síðastliðnum án tillögu um útfærslu á varaliðskeppni.

Besta deild karla hefst 10. apríl næstkomandi og fer Besta deild kvenna af stað um tveimur vikum síðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner