mið 15. mars 2023 11:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Var blaut tuska í andlitið en endaði á að vera eitt mesta gæfusporið
Emil með Íslandsmeistarabikarinn árið 2015.
Emil með Íslandsmeistarabikarinn árið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með FJölni.
Í leik með FJölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sumarið 2015 er það sem stendur upp úr frá ferli miðjumannsins Emils Pálssonar.

Emil hafði þarna verið í FH frá 2011 en stuttu fyrir tímabilið átti hann fund með Heimi Guðjónssyni, þáverandi og reyndar núverandi þjálfara liðsins, þar sem honum var tjáð að hann ætti að fara annað á láni. Hann var í kjölfarið lánaður í Fjölni.

„Það var í rauninni bara Heimir Guðjóns sem sagði mér að ég þyrfti að gera það," sagði Emil um það af hverju hann ákvað að fara í Fjölni.

„Við fórum í æfingaferð til Marbella. Ég var með kassann úti eftir þá ferð. Mér gekk vel og ég skoraði sigurmark gegn Molde. Mér leið eins og yrði stór partur af liðinu. Svo komum við heim úr þessari æfingaferð og eftir fyrstu æfinguna eftir ferðina þá kallar Heimir í mig og mælir með því að ég eigi að fara á lán; hann sjái mig ekki fyrir sér sem einn af þremur, fjórum fyrstu miðjumönnunum í liðinu."

„Þá vildi ég bara strax fara. Fyrst hann segir þetta, þá sá ég að ég væri ekki með hlutverk. Þá vildi ég fara eitthvert annað og spila. Það tók við smá ferli hvert ég væri að fara. Eftir að ég átti samtal við Gústa (Gylfa) og Óla Palla (Snorrason) þá ákvað ég að fara í Fjölni. Ég spilaði lengi með Óla Palla í FH og hann var mikilvægur hlekkur í því að ég ákvað að fara í Fjölni. Það endaði á því að vera eitt mesta gæfusporið á mínum ferli."

Betra að fara á láni en að sitja á bekknum
Emil fór í Fjölni og var hreint út sagt stórkostlegur fyrri hlutann af mótinu. Hann var það góður að Heimir ákvað að kalla hann til baka. Emil varð svo lykilmaður í Íslandsmeistaraliði FH seinni hlutann og var besti maður mótsins. Ekki oft sem það gerist að leikmaður spili á láni fyrri hluta tímabils og séu svo valinn leikmaður ársins.

„Ég var búinn að sjá fyrir mér að vera miðjumaður númer eitt í FH. Þetta var blaut tuska í andlitið, en eftir að maður er lengur í fótboltanum þá áttar maður sig á því að þeir eru að gera það sem er best fyrir liðið. Þeir sáu ekki fyrir sér að ég væri mikilvægur hlekkur og þá var betra að fara á lán en að sitja á bekknum."

Tímabilið hefði í raun ekki getað farið betur. „Ef ég hefði skrifað handritið sjálfur þá hefði það verið nákvæmlega svona... þetta var svolítið súrrealískt, geggjað tímabil."

Hann segir að það hafi mótíverað sig að fara á láni. „Þú ferð í 'revenge mode'. Ég hugsaði að ég væri að fara að sýna Heimi að hann væri að gera mistök. Það er besta hugarfarið til að fara inn í svona lán með. Þú þarft að sýna að þú eigir skilið að spila, nota þetta sem stökkpall."

Svekkjandi að fara ekki út eftir 2015
Eftir tímabilið voru sögusagnir um að Emil væri á leið út í atvinnumennsku. Belenenses í Portúgal hafði áhuga, sem og Hammarby í Svíþjóð. Hann segir að það hafi verið svekkelsi að fara ekki út á þeim tímapunkti.

„Því miður náðu félögin ekki saman og það varð ekkert úr því. Ég held að það hafi litað næstu tímabil hjá mér, sem voru ekki eins góð. Ég held að hluti af því hafi verið svekkelsi yfir því að hafa ekki náð að fara út. Það tókst svo síðan á endanum 2018 þegar ég fer til Noregs," sagði Emil en hann lagði skóna á hilluna í fyrra eftir að hafa farið í tvö hjartastopp. Í spilaranum hér fyrir neðan er hægt að hlusta á spjallið í heild sinni þar sem hann ræðir meira um ferilinn og hvernig honum leið eftir að hann komst ekki út eftir magnaða tímabilið sem hann átti.

Sjá einnig:
Leikmaður ársins 2015: Mér voru settir úrslitakostir
Að halda lífi eða halda áfram í fótbolta
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner