Arsenal og Man Utd vilja Adeyemi - Stórveldi á eftir miðjumanni AZ - PSG vill Vinícius á frjálsri sölu 2027 - Newcastle skoðar Trafford
   lau 15. nóvember 2025 20:39
Brynjar Ingi Erluson
Leggur skóna á hilluna aðeins 31 árs gamall - „Líkaminn brást mér“
Mynd: EPA
Ítalski miðvörðurinn Mattia Caldara hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna aðeins 31 árs að aldri.

Caldara þótti gríðarlegt efni hér árum áður. Hann hóf feril sinn hjá Atalanta en sprakk í raun og veru út á láni hjá Cesena þar sem hann lék í vörninni með Herði Björgvini Magnússyni.

Síðar var hann seldur til Juventus en spilaði aldrei leik með 'gömlu konunni'.

Aftur sneri hann til Atalanta þar sem hann átti stórkostlegt tímabil og þaðan fór hann til Milan en þrálát meiðsli héldu honum oft frá keppni.

Síðustu ár hefur Milan lánað hann til Atalanta, Íslendingaliðs Venezia og Spezia áður en hann hélt til Modena á síðasta ári.

Caldara hefur barist við erfið meiðsli og andlega vanlíðan síðustu ár og hefur nú ákveðið að kalla þetta gott en hann segir það vera mikinn létti að leggja skóna á hilluna.

„Kæri fótbolti, nú er komið að kveðjulokum. Ég hef ákveðið að kalla þetta gott. Þetta var ekki auðveld ákvörðun að taka hvað þá að skrifa þetta. Ég held áfram að lesa yfir þessi orð og kannski er þetta leið til þess að sætta sig við niðurstöðuna.“

„Nú hef ég loks fundið frið, en það tók tíma til að taka þessa ákvörðun. Allt fór þetta af stað í júlí eftir heimsókn hjá sérfræðingi sem sagði mér að ég væri ekki með neitt brjósk í ökklanum. Ef ég myndi halda áfram þá yrði ég kominn með gervifót eftir nokkur ár. Líkaminn brást mér,“
sagði Caldara.

Caldara lék 2 A-landsleiki með Ítölum árið 2018 og 12 leiki fyrir U21 árs landsliðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner