Ruslan Malinovskyi, stjörnuleikmaður Úkraínu, segir leikinn gegn Íslandi vera úrslitaleik fyrir þjóðina og þeir þurfi að skora úr færunum sem þeir fá á morgun.
Úkraína þarf sigur til að komast í umspil en tap og jafntefli senda Ísland áfram.
Hákon Arnar Haraldsson sagði á fréttamannafundi í dag að hann vonaðist til þess að Malinovskyi myndi ekki byrja leikinn enda gríðarlega ógn í sókninni.
Hann skoraði tvennu í 5-3 sigri Úkraínu á Laugardalsvelli í fyrri leiknum, en hann veit sjálfur að þetta verður öðruvísi leikur á morgun.
„Kannski nefndi hann mig því við mættumst þegar ég spilaði með Marseille, en þetta verður allt annar leikur á morgun. Við spilum heima og Íslendingar verða sáttir við tvær mögulegar niðurstöður á meðan við þurfum bara sigur. Ábyrgðin er mun meiri og er þetta í raun alger úrslitaleikur fyrir okkur,“ sagði Malinovskyi á fréttamannafundinum í kvöld.
„Við þurfum að endurtaka það sem við gerðum vel og laga það sem við gerðum rangt. Við erum með frábært lið og allir eru fullir af orku. Við erum tilbúnir.“
„Aðalatriðið er að klikka ekki á færum. Ég er viss um að við munum fá tækifæri til að skora og það eru þessi smáu atriði sem ákveða allt. Það getur verið mjög erfitt að komast aftur inn í leikinn þegar þú klúðrar færum. Við þurfum að mæta eins einbeittir og við getum frá fyrstu mínútur og ekki gefa andstæðingnum færi, en við vitum að við þurfum að vera sérstaklega varkárir í föstum leikatriðum.“
Hann segir að þegar mikið er undir þá sé mjög brýn þörf á því að vera með einbeitinguna upp á tíu. Hann vonar að það verði raunin á morgun.
„Það að spila undir pressu eykur ábyrgð og einbeitingu. Þegar ég var yngri þá hafði ég meiri áhyggjur, en núna skilur maður að þeim leikjum fækkar í lok ferilsins. Það er alltaf betra að fara út á völlinn með það í huga að þú sért að fara vinna leikinn,“ sagði hann enn fremur.
Ísland er í öðru sæti riðilsins með 7 stig og betri markatölu en Úkraína sem er í þriðja sæti með jafnmörg stig. Jafntefli dugir Íslandi til að komast í umspil.
Athugasemdir





