fös 16. ágúst 2019 11:00
Magnús Már Einarsson
Hver er 35 ára markvörðurinn sem gæti spilað með Liverpool?
Andy Lonergan í leik með Bolton fyrr á ferlinum.
Andy Lonergan í leik með Bolton fyrr á ferlinum.
Mynd: Getty Images
Möguleiki er á því að Andy Lonergan spili sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni þegar Liverpool heimsækir Southampton á morgun.

Hinn 35 ára gamli Lonergan yrði þá elsti leikmaðurinn til að þreyta frumraun sína í ensku úrvalsdeildinni á þessari öld.

Lonergan spilaði með Rochdale í ensku C-deildinni í vor á láni frá Middlesbrough. Samningur hans hjá Boro rann út í sumar og þá reiknaði hann ekki með að eiga möguleika á að spila með Evrópumeisturum Liverpool í ágúst.

Liverpool fékk Lonergan með sér í æfingaferð til Bandaríkjanna í sumar þar sem félagið vantaði markvörð á meðan Alisson var í sumarfríi eftir Copa America.

Alisson meiddist í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar fyrir viku og þá ákvað Liverpool að bjóða Lonergan stuttan samning.

Adrian, sem kom til Liverpool á dögunum, meiddist í fagnaðarlátum eftir leikinn gegn Chelsea í Ofurbikarnum í fyrrakvöld en stuðningsmaður kom inn á og rann á hann.

Lonergan gæti því óvænt fengið sénsinn á að spila sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Lonergan hefur flakkað á milli liða í ensku neðri deildunum allan sinn feril og spilað með liðum eins og Preston, Darlington, Wycombe, Leeds, Bolton, Fulham, Wolves og fleirum.

Eftir 335 leiki í Championship deildinni, 15 leiki í C-deildinni og þrjá í D-deildinni á ferlinum þá gæti fyrsti úrvalsdeildarleikurinn loksins komið á morgun.

Athugasemdir
banner
banner