Kobbie Mainoo,19 ára gamall miðjumaður Man Utd, er í byrjunarliðinu hjá United sem mætir Fulham í fyrsta leik úrvalsdeildarinnar í kvöld.
Mainoo var frábær með liðinu á síðustu leiktíð þar sem hann kom við sögu í 24 leikjum í deildinni og í kjölfarið var hann valinn í landsliðshóp Englands fyrir EM í Þýskalandi.
Jamie Carragher, sérfræðingur á Sky Sports og fyrrum leikmaður Liverpool, er mjög hrifinn af miðjumanninum unga.
„Elska að horfa á hann spila og elskaði það sem hann gerði í sumar (á EM). Við spurðum spurninga um miðjuna hjá Man Utd á síðustu leiktíð og vorum að segja: 'Það þarf einhvern með Casemiro?. Nú þarf Mainoo einhvern félaga. Það er útlit fyrir að þeir séu að leita að einum í glugganum," sagði Carragher.
„Hann er á þessum stað núna sex mánuðum eftir að hafa spilað sinn fyrsta leik. Hefur skorað í bikarúrslitum og það sem hann hefur gert með landsliðinu. Ég held að hann verði ofurstjarna."