Ísak Bergmann Jóhannesson, miðjumaður íslenska landsliðsins, var til umræðu í útvarpsþættinum Fótbolta.net en þar voru menn sammála um að hann væri búinn að taka miklum framförum síðan Arnar Gunnlaugsson tók við keflinu.
Mikil gæði eru á miðsvæði íslenska liðsins en þar má finna vinina og uppeldisbræðurna Ísak Bergmann og Hákon Arnar Haraldsson.
Tómas Þór Þórðarson og Benedikt Bóas Hinriksson stýrðu umræðunni í þættinum og var Hallgrímur Heimisson, yfirþjálfari Vals, gestur dagsins.
Ísak og Hákon hafa leikið feykilega vel með landsliðinu að undanförnu og talaði Tómas sérstaklega um gæðin í þeim.
„Ætti að vera rosalega þægilegt þegar þú ert með menn í Hákoni og Ísaki sem eru allir á því leveli á sínum fótboltaferli að geta valið sendingar á réttum tíma. Maður er oft að horfa á Bestu deildina og manni langar bara að skalla steypu þegar þeir eru í skyndisóknum sem er kannski munurinn á að þeir eru þar og hinir eru annars staðar, en það er bara allt í góðu. Fótboltaleg greind þeirra er samt alveg „mind-blowing“ því maður sér svo lítið af þeim spila. Ég er ekki að horfa á Bundesliga 2, Seríu A eða Ligue 1, þannig ég fæ bara að sjá þessa gæja á þessum tímapunkti og er alltaf bara: Vó!“ sagði Tómas.
Hallgrímur segist ekki hafa séð jafn mikil gæði í landsliðinu í langan tíma.
„Ég held að við höfum sjaldan verið með jafn gæðamikið lið í lengri tíma og sóknarlega höfum við aldrei litið svona vel út í einhver ár,“ sagði Hallgrímur áður en Tómas Þór skaut inn í að þetta væri öðruvísi en þegar við spiluðum með Kolbein Sigþórsson og Jón Daða Böðvarsson upp á topp.
Hallgrímur tók þá undir með Tómasi um að Ísak Bergmann væri búinn að þroskast mikið sem leikmaður.
„Alveg fullt. Ég man í byrjun vorum við allir að lofsama hann, en svo staðnaði hann smá. Núna sérstaklega eftir að Arnar kom inn þá hefur maður séð hann alveg blómstra með landsliðinu og líka úti. Hann hefur tekið mörg skref upp á við.“ sagði Hallgrímur um Ísak.
Benedikt Bóas Hinriksson stakk þá inn í að hann hafi munað eftir Ísaki í hægri bakverðinum og sagði það hafa verið mjög áhugaverðan leik, en að Arnar Gunnlaugs væri ekki líklegur til að setja hann þangað, að minnsta kosti ekki í bili.
Ísak verður ekki í bakverðinum gegn Úkraínu í Varsjá klukkan 17:00 í dag, en það eru allar líkur á að hann verði á miðsvæðinu í þessum mikilvæga leik.
Athugasemdir




