Portúgalinn Bruno Fernandes segir Cristiano Ronaldo meðvitaðan um að hann gerði stór mistök í 2-0 tapi portúgalska landsliðsins gegn Írlandi í Dyflinni á dögunum.
Ronaldo sá rautt spjald fyrir árásargjarnt brot á Nathan Collins, miðverði Írlands.
Sóknarmaðurinn klappaði fyrir dómaranum er hann gekk af velli og fór þá beint upp að Heimi Hallgrímssyni, þjálfara Írlands, til að að hrósa honum fyrir það eitt að vera sniðugur í viðtölum fyrir leikinn, en Ronaldo vildi meina að orð Heimis hefðu áhrif á dómara leiksins.
Það verður að fá að liggja milli hluta hvort Ronaldo hafi rétt fyrir sér eða ekki, en hann var alla vega rekinn af velli og verður því í banni gegn Armeníu í dag.
„Þetta gerist í fótbolta. Það kom augnablik þar sem Cristiano brást við og það reyndist honum dýrkeypt,“ sagði Fernandes.
„Hann vildi ekki gera þetta, en á endanum gerðist það. Hann veit að hann gerði mistök og gat því miður ekki hjálpað okkur en það breytir því ekki að við vorum þegar lentir undir í leiknum. Þetta gerði hlutina aðeins erfiðari því við vorum að spila með tíu leikmenn og vorum ekki með leikmann sem hefði getað skorað mark á hverri stundu,“ sagði Fernandes enn fremur.
Portúgal getur tryggt HM-sætið með sigri á Armeníu í kvöld.
Athugasemdir


