Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fös 17. febrúar 2023 07:44
Elvar Geir Magnússon
Aftur frestað hjá Kórdrengjum - Ekki í sæng með FH
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH mun ekki taka yfir Kórdrengi.
FH mun ekki taka yfir Kórdrengi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Búið er að fresta öðrum leik hjá Kórdrengjum í Lengjubikarnum en liðið átti að mæta ÍBV á morgun. Kórdrengjum var dæmt 3-0 tap fyrir að mæta ekki í leik gegn Breiðabliki í fyrstu umferð.

Allt virðist stefna í að Kórdrengir taki ekki þátt í Lengjudeildinni í sumar en ekkert hefur verið staðfest og einn leikur tekinn í einu. Liðið er enn skráð í Lengjubikarinn og næsti skráði leikur liðsins er eftir rúma viku.

Síðustu vikur hafa Kórdrengir verið í viðræðum við FH en uppi voru hugmyndir hjá Hafnarfjarðarfélaginu um að taka yfir Kórdrengi og gera þá að nokkurs konar varaliði, spila á yngri leikmönnum.

Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH hefur ekkert viljað tjá sig um málið við Fótbolta.net en staðfesti í samtali við 433.is að viðræður hafi siglt í strand og ekkert yrði af yfirtökunni.

Davíð vonar innilega að Kórdrengir haldi áfram að spila á Íslandsmótinu.

„Það er ótrúlega leiðinlegt ef Kórdrengir ná ekki að halda áfram. Ég vona innilega að þeir geti fundið lausn á þessu sjálfir," sagði Davið við 433.is.

Kórdrengir hafa undanfarin tvö ár leikið í Lengjudeildinni en þjálfari liðsins og helsti burðarás, Davíð Smári Lamude, tók við Vestra í vetur. Kórdrengjaliðið hefur auk þess misst marga leikmenn og hafa ekki staðið fyrir skipulögðum æfingum.

Það stefnir allt í að liðið taki ekki þátt í sumar og þá verður það væntanlega hlutskipti Ægis í Þorlákshöfn að taka sætið í Lengjudeildinni. Reglugerð KSÍ er þó ekki mjög skýr og er mögulegt að KV, sem féll úr Lengjudeildinni, fái sætið.

Það er mikil óvissa í íslenska fótboltanum en ljóst er að ef Kórdrengir draga sig úr keppni hefur það áhrif á mörg lið og ekki bara Lengjudeildina heldur allar deildirnar fyrir neðan. Þá hefur ekki verið dregið í bikarnum þar sem óvíst er með þátttöku liðsins.

Riðill 2 í Lengjubikarnum er í upplausn. ÍBV gat ekki spilað í fyrstu umferð vegna veðurs og Breiðablik verður búið að spila fjóra leiki í riðlinum áður en næstu skráðu leikir hjá Kórdrengjum og ÍBV eiga að fara fram.
Athugasemdir
banner
banner