Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   fim 17. mars 2022 23:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Eitt mest spennandi starf á Íslandi með alla þessa gullmola í höndunum
Ágúst Gylfason.
Ágúst Gylfason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gústi og Jökull.
Gústi og Jökull.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karlalið Stjörnunnar hefur litið vel út á þessu undirbúningstímabili. Síðasta tímabil var erfitt í Garðabænum, en það eru jákvæð teikn á lofti núna.

Ágúst Gylfason tók við Stjörnunni eftir síðasta tímabil. Gústi var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag þar sem hann ræddi um verkefnið. Hann segir það mjög spennandi.

„Við erum ekki að hrúga inn útlendingum og öðrum því við erum með góða stráka þarna sem við viljum byggja ofan á og gera að framtíðarmönnum félagsins og íslenska landsliðsins," sagði Gústi.

Það er erfitt að spá í það hvernig tímabilið mun fara fyrir Stjörnuna. Það eru breytingar og verður spennandi að sjá hvernig liðið kemur til leiks.

„Það er gaman að því að vera óskrifað blað. Við viljum að sjálfsögðu gera betur en í fyrra þegar við lentum í sjöunda sæti. Eigum við ekki að byrja á því að hafa markmiðið að vera í efri hlutanum? Og taka þátt í þeirri úrslitakeppni þegar hún kemur. Það er fyrsta markmið. Við eigum eftir að setja okkur endanlegt markmið."

„Við erum mjög sáttir með okkar frammistöðu enn sem komið er. Það verður gaman að spila á móti stóru liðunum og sjá hvort að við séum ekki á svipuðum stalli."

„Það er skemmtilegt að vera með þennan hóp og ég held að ég og Jökull séum sennilega í einu mest spennandi starfi á Íslandi í dag með alla þessa gullmola í höndunum. Þetta er eitt mest spennandi verkefni sem ég hef tekið að mér. Liðið er dálítið breytt frá því í fyrra. Við ákváðum þegar við tókum við að breyta aðeins taktísku hliðinni og vera með betri hlaupatölur og ákefð. Það hefur skilað góðum úrslitum. Við erum búnir að taka mikið á því," sagði Gústi.

Gamli og nýi skólinn
Gústi er með mikla reynslu í þjálfun, en honum til aðstoðar er Jökull Elísabetarson. Jökull hefur þjálfað Augnablik undanfarin ár og öðlast reynslu þar. Það fer gott orð af Jökli og hans pælingum. Hvernig gengur samstarfið?

„Við náðum að fá Jökul til okkar og ég er gríðarlega ánægður með hans störf," sagði Gústi sem telur það gott að fá hann inn með sér.

„Þarna mætast nýi og gamli skólinn. Það hefur gengið hrikalega vel. Ég er mjög ánægður að hafa fengið hann."

Óskar kemur inn með reynslu
Það eru margir ungir og efnilegir leikmenn hjá Stjörnunni, en þar er líka að finna eldri og reynslumeiri menn. Þar er fremstur í flokki Óskar Örn Hauksson, sem var fenginn frá KR. Það er maður sem þekkir það að vinna fótboltaleiki og vinna titla.

„Að fá Óskar er frábært. Hann er mikil fyrirmynd fyrir okkar ungu stráka, líka eldri og okkur þjálfarana. Ef hann segir eitthvað, þá hlusta menn; hann hefur gert þetta allt og unnið þetta allt," sagði Gústi.

„Við erum með tíu, ellefu leikmenn úr öðrum flokki sem eru að æfa með meistaraflokki. Ég var með sjö, átta stráka (úr öðrum flokki) hjá Fjölni á sínum tíma og mér fannst það svakalega mikið. Þetta er skemmtilegt. Svo erum við Óskar og fleiri fullorðna karlmenn. Það sem vantar aðeins inn í hópinn er þessi millialdur, frá 1995 til 2000. Meðalaldur liðsins gæti verið 24, 25 ára en enginn á þeim aldri í liðinu."

„En það er frábært að fá Óskar og hann gerir vel fyrir okkur, frábært að krækja í hann. Maður sér í leikjum, fyrir æfingar og eftir æfingar að hann er að spjalla við strákana og þeir hlusta vel."

Gústi vonast til að bæta við einum eða tveimur leikmönnum fyrir mót og einn eða tvo menn svo þegar glugginn opnar í sumar. Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Siggi Höskulds, Gústi Gylfa og fótboltafréttir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner