Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 17. september 2021 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Með smá grænt í hjartanu en vonar innilega að Víkingur vinni titilbaráttuna
Karl Friðleifur Gunnarsson
Karl Friðleifur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
í leik með Víkingi í sumar.
í leik með Víkingi í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það yrði skemmtilegt fyrir mig
Það yrði skemmtilegt fyrir mig
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Maður vonast alltaf til þess að fá að taka þátt í sem flestum landsliðsverkefnum.
Maður vonast alltaf til þess að fá að taka þátt í sem flestum landsliðsverkefnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Karl Friðleifur Gunnarsson er í mjög svo athyglisverðri stöðu nú þegar tveir leikir eru eftir af Íslandsmótinu. Kalli, eins og hann er oftast kallaður, er samningsbundinn Breiðabliki og er á láni hjá Víkingi.

Breiðablik er í toppsæti Pepsi Max-deildarinnar, með tveggja stiga forskot á Víking í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Fótbolti.net ræddi við Kalla í dag.

Er með smá grænt hjarta en er Víkingur í dag
„Tilfinningarnar eru mjög blendnar. Ég er Víkingur í mínum huga. Þó að ég sé samningsbundinn Breiðabliki þá er ég aðallega að hugsa um Víking núna. Ég vona svo innilega að Víkingur vinni titilbaráttuna þótt það sé smá grænt hjarta í manni. Ég er búinn að spila með Víkingi í heilt sumar þannig ég vona að við tökum þetta," sagði Kalli.

Ertu orðinn miklu meiri Víkingur eftir sumarið? „Já, klárlega orðinn miklu meiri Víkingur eftir þetta sumar heldur en þegar ég kom fyrst til félagsins. Líka hvernig ég er búinn að tengjast strákunum í félaginu og er kominn inn í alla hluti."

„Í byrjun tímabils þá var ég ekki að sjá fyrir mér titilbaráttu mili Breiðabliks og Víkings. Okkur var spáð 6. - 7. sæti, við vissum allir í klefanum að við vorum með sterkan hóp en að berjast við Breiðablik í lok tímabilsins... ég held að sú hugsun hafi aldrei komið upp."


Ekki ljóst hvar hann spilar næsta sumar
Kalli er samningsbundinn Breiðabliki út næsta tímabil. Býstu við því að spila með Breiðabliki á næsta ári? „Ég veit það ekki, það mun allt koma í ljós. Ég mun setjast niður með Arnari og forráðamönnum Víkings og líka með þeim hjá Breiðabliki, við munum setjast niður, ræða málin og komast að endanlegri niðurstöðu hvað mun gerast. Vonandi ganga allir sáttir frá borði eftir þær viðræður."

Markmiðið að fara í atvinnumennsku
Hvert stefnir hugurinn? Það hefur verið talað um mögulega atvinnumennsku, viltu fara út núna eða taka eitt tímabil á Íslandi í viðbót?

„Í langan tíma hefur markmiðið verið að komast út í atvinnumennsku en ef niðurstaðan verður annað tímabil hér heima þá er það ekkert til að vera svekktur út í. Það væri eitthvað til að hlakka til og halda áfram að gera góða hluti."

Þegar eða ef að því kemur að þú farir erlendis. Ertu með einhvern stað sem þú vilt byrja á?

„Ég held að það sé bara að velja úr því sem kemur upp. Því fleiri möguleikar því betra. Maður lokar aldrei neinum gluggum og maður skoðar allt sem maður fær."

Breyttist með komu Davíðs til Breiðabliks
Þegar Víkingur kemur upp í vetur, hvað hugsaðiru? Hefðiru viljað vera í Breiðablik? „Góð spurning. Eins og staðan var í upphafi undirbúningstímabilsins þá leit allt út fyrir að ég yrði í Breiðablik og myndi spila fyrir Breiðablik."

„Svo kemur það upp að Davíð [Örn Atlason] kemur yfir [frá Víkingi til Breiðabliks] og þá þarf maður að hugsa um spiltíma og annað. Arnar var fljótur að heyra í mér eftir að þessi skipti áttu sér stað. Við ræddum málin og hann útskýrði fyrir mér hvernig hlutirnir yrðu, hvert mitt hlutverk yrði og hann sýndi mér hvernig hann sá þetta allt fyrir sér og það heillaði mig mjög mikið. Hann var mjög sannfærandi og þetta var mjög auðveld ákvörðun í kjölfarið."


Kominn með betri yfirsýn á fótbolta
Í hverju finnst þér þú hafa bætt þig mest í sumar? „Ég myndi segja að mestu bætingarnar eru í hvernig ég sé leikinn. Arnar sýnir manni hvar svæðin eru sem maður þarf að vera og hvaða svæðum þarf að loka. Ég veit að ég er góður fótboltamaður en ég er kominn með betri yfirsýn á fótbolta og meiri skilning á fótbolta eftir að ég kom til Víkings."

Skemmtilegra að leikið sé á sama tíma
Á sunnudag fara fram mikilvægir leikir í næstsíðustu umferð deildarinnar. Víkingur heimsækir KR og Breiðablik heimsækir FH. Upphaflega átti Víkingur að spila í kjölfarið á leik Breiðabliks en sá leikur hefur nú verið færður og spila þau á sama tíma. Hvað finnst þér um þá ákvörðun?

„Mér finnst það mjög gott, það hjálpar einbeitingunni. Það er ekki gott að vera að pæla í öðrum leikjum þegar maður er að fara í leik. Fyrir bikarleikinn voru menn aðeins að kíkja á Valsleikinn í klefanum. Það er óþarfa fókus sem fer í að fylgjast með öðrum leik og mér finnst skemmtilegra að þetta sé á sama tíma."

Talandi um bikarleikinn á móti Fylki, framlengdur leikur. Hvernig eru menn að koma út úr þeim leik?

„Það er mismunandi. Arnar var klókur þegar maður horfir til baka að skipta svona mörgum inn á og dreifa álaginu. Ég held að Sölvi sé sá eini sem er ennþá að jafna sig eftir 120 mínútur," sagði Kalli og hló.

Víkingur vildi kaupa Kalla í sumar
Hefur komið til tals að þú skiptir alfarið yfir í Víking frá Breiðabliki? „Já, viðræður fóru í gang um mitt sumar, annað hvort í júní eða júlí. Þá töluðum við Arnar saman um að færa mig alveg yfir og mér leist mjög vel á það. Það náðist ekki samkomulag í viræðunum milli Breiðabliks og Víkings og við verðum að setjast aftur niður eftir tímabil og skoða það."

„Veit ekki hvernig Blikarnir myndu taka í það"
Ímyndum okkur að Víkingur vinni deildina og þú snýrð aftur í Breiðablik sem Íslandsmeistari. Það yrði væntanlega skemmtilegt?

„Það yrði skemmtilegt fyrir mig, en ég veit ekki hvernig Blikarnir myndu taka í það. Maður væri örugglega ekki velkominn," sagði Kalli og hló.

„Það er yndislegt að tvö góð félög eru að berjast um þennan Íslandsmeistaratitil. Svona á þetta að vera, hörð barátta og þannig viljum við hafa þetta," sagði Kalli á aðeins alvarlegri nótum.

Hafa einhver skilaboð farið milli þín og einhverra stráka í Breiðabliki varðandi titilbaráttuna að undanförnu? „Nei, alls ekki. Það er ekkert búið að vera þannig."

Pæla ekkert í Breiðabliki
Þegar þú ferð inn á völlinn núna í síðustu leikjunum. Er einbeitingin öll á að vinna leikinn og ekkert pælt í því hvað Breiðablik er að gera?

„Nei, alls ekki. Við erum ekkert að pæla í Breiðabliki, erum 100% með hugann við okkur sjálfa. Við klárum bara okkar og sjáum hvernig þetta fer í lokin. Þetta fer eins og þetta fer. Ef við náum að klára okkar þá vonandi fer þetta eins og við viljum að þetta fari."

Möguleiki á tvennunni
Finnst þér bikarinn eitthvað vera að trufla ykkur í undirbúningnum fyir lokasprettinn í deildinni? „Nei, mér finnt jafnvel skemmtilegra að hafa bikarinn með. Það er ekki oft á Íslandi sem lið á möguleikann á því að vinna tvennuna. Ég held að það sýni hversu sterkir við erum búnir að vera í sumar. Ég held að það sé ákveðin yfirlýsing að við séum að berjast um tvo titla og nú einbeitum við okkur að því að klára þessi verkefni."

Heiður að vera hluti af U21 landsliðinu
Að lokum er það aðeins um U21 árs landsliðið. Þú varst í hópnum um daginn. Er það eitthvað sem þú horfir í að vera áfram í þeim hópi í framhaldinu?

„Algjörlega, það var heiður að vera partur af þessum hópi og þvílík gæði sem eru í strákunum. Þjálfarateymið og allt í kringum þetta er bara geggjað. Maður vonast alltaf til þess að fá að taka þátt í sem flestum landsliðsverkefnum."

Leikirnir sem máli skipta í titilbaráttunni:
sunnudagur 19. september
16:15 FH-Breiðablik (Kaplakrikavöllur)
16:15 KR-Víkingur R. (Meistaravellir)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner