Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
   sun 17. september 2023 17:18
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Noregur: Fyrirgjöf Valdimars endaði í markinu - Bodö/Glimt missteig sig
Fredrikstad stefnir hraðbyri upp í efstu deild
watermark Valdimar Þór Ingimundarson
Valdimar Þór Ingimundarson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Ísak Snær Þorvaldsson
Ísak Snær Þorvaldsson
Mynd: Rosenborg

Bodö/Glimt var á toppi norsku deildarinnar fyrir helgina en liðið missti það í hendur Víking eftir sigur liðsins gegn Haugesund í gær.


Bodö gat endurheimt toppsætið með sigri á Ísak Snæ Þorvaldssyni og félögum í Rosenborg í dag.

Ísak byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 70. mínútu. Þá var staðan orðin 1-1 og það urðu lokatölur. Bodö/Glimt er því tveimur stigum frá toppsætinu en Rosenborg er í 8. sæti með 29 stig eftir 22 umferðir.

Brynjar Ingi Bjarnason spilaði 73. mínútur þegar HamKam tapaði 2-1 gegn Tromsö en Hilmir Rafn Mikaelsson leikmaður Tromsö er enn frá vegna meiðsla. Viðar Ari Jónsson var ekki heldur með HamKam.

Tromsö er í 3. sæti, stigi á eftir Bodö/Glimt og þremur stigum á eftir toppliði Viking. HamKam er í 11. sæti með 23 stig.

Það var Íslendingaslagur í næst efstu deild í Noregi þegar Fredrikstad fékk Sogndal í heimsókn. Júlíus Magnússon var á sínum stað í liði Fredrikstad með fyrirliðabandið. Valdimar Þór Ingimundarson og Jónatan Ingi Jónsson voru í byrjunarliði Sogndal en óskar Borgþórsson kom inn á sem varamaður.

Strax á 8. mínútu komst Sogndal yfir en það var sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Valdimar. Fredrikstad jafnaði metin fyrir lok fyrri hálfleiks.

Snemma í síðari hálfleik fékk Jónatan tækifæri til að koma Sogndal aftur yfir en markvörður Fredrikstad sá við honum. Tæpum tíu mínútum síðar náði Fredrikstad forystunni og það reyndist sigurmarkið.

Brynjólfur Willumsson lék allan leikinn í 1-1 jafntefli Kristiansund gegn Kongsvinger. Fredrikstad er með 48 stig, sjö stiga forystu á toppi deildarinnar þegar sjö umferðir eru eftir. Sogndal er í 6. sæti með 34 stig, jafn mörg stig og Kristiansund sem er í sætinu fyrir ofan.


Athugasemdir
banner
banner