Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 17. október 2019 17:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðjón Þórðar mölbraut úrið sitt í hálfleik - Minnir á Klopp
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón stýrði Stoke frá 1999 til 2002.
Guðjón stýrði Stoke frá 1999 til 2002.
Mynd: Getty Images
„Hann var algjör brjálæðingur, en á góðan hátt," segir Peter Thorne, fyrrum sóknarmaður Stoke City, um íslenska fótboltaþjálfarann Guðjón Þórðarson.

Thorne, sem spilaði með Stoke, frá 1997 til 2001 er í viðtali við Duck tímaritið þar sem hann ræðir um fyrrum knattspyrnustjóra sína hjá Stoke og kemur Guðjón við sögu.

Guðjón stýrði Stoke frá 1999 til 2002 eftir að íslenskir eigendur tóku við stjórn félagsins.

Segja má að Thorne hafi blómstrað hjá Guðjóni og skoraði hann 47 mörk í 89 leikjum undir stjórn Skagamannsins.

Hann átti ekki alltaf fast sæti í liði Guðjóns þar sem hann var meðal annars í baráttu við Ríkharð Daðason og aðra íslenska leikmenn. Hann elskaði þrátt fyrir það að spila hjá Guðjóni.

„Ég elskaði hann. Ég hef aldrei spilað undir knattspyrnustjóra sem er eins ástríðufullur."

„Þegar hann missti stjórn á skapi sínu, þá trylltist hann gjörsamlega. Ég man einu sinni í hálfleik í einum leiknum, þegar við vorum að spila ömurlega, þá tók hann úrið af úlnliðnum sínum og negldi því í vegg. Hann mölbraut það."

„Hann gat líka haft gaman. Hann faðmaði þig og talaði vel um þig."

„Hann minnir mig á nútímaþjálfara eins og Jurgen Klopp. Stjóra með bros á vör sem ná alltaf því besta út úr liðinu," sagði Peter Thorne.

Guðjón náði fínum árangri með Stoke og kom liðinu upp úr B-deild árið 2002. Hann stýrði liðinu einnig til sigurs í Framrúðubikarnum árið 2000 þar sem Thorne skoraði í úrslitaleiknum á Wembley gegn Bristol City.

Hann er í dag þjálfari NSÍ í Færeyjum þar sem hann hefur verið að gera góða hluti. NSÍ er sem stendur í þriðja sæti færeysku úrvalsdeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner