Swansea City hefur ákveðið að reka Luke Williams úr þjálfarastarfi félagsins eftir 13 mánuði við stjórnvölinn.
Williams fær sparkið eftir 3-1 tap gegn Stoke City um helgina, en Swansea hefur tapað sjö af síðustu átta leikjum í öllum keppnum.
Þjálfararnir Ryan Harley og George Lawtey yfirgefa félagið með honum og því tekur Alan Sheehan við til bráðabirgða, þar til nýr aðalþjálfari verður ráðinn.
Svanirnir voru í níunda sæti Championship deildarinnar eftir sigur gegn Luton Town í lok desember, en hafa síðan þá aðeins náð í fjögur stig úr níu leikjum og eru komnir í fallbaráttuna. Þeir töpuðu meðal annars 3-0 gegn erkifjendunum í Cardiff og fann stjórn félagsins sig knúna til að gera stóra breytingu.
Swansea er í 17. sæti deildarinnar, átta stigum frá fallsæti, og tekur á móti Blackburn Rovers um næstu helgi.
Athugasemdir